143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega eru gjaldmiðilsmálin, ég tek undir það með hv. þingmanni, mjög knýjandi. Það eru miklir hagsmunir að sjá hvort við getum ekki innleitt nýjan gjaldmiðil á Íslandi, í okkar litla og opna hagkerfi.

Evrópusambandið er auðvitað margt og ég veit ýmislegt um það. En það er líka stórt samband með 28 mismunandi ríkjum og það er ekkert allt gott innan þess. Það er samt sem áður vettvangur þar sem 28 ríki hafa ákveðið að vinna sameiginlega að framfaramálum í álfunni og reyna að leysa deiluefni við samningaborðið í stað þess að fara í stríð eins og löngum tíðkaðist í álfunni.

Ég vil spyrja þingmanninn um þá efnahagserfiðleika, sem riðið hafa yfir Evrópu, hvort kannski hefði verið erfiðara að leysa þá án evru og án Evrópusambandsins.