143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ég hafi skilið hann rétt. Ég fékk það á tilfinninguna að hv. þingmaður væri að taka undir ómöguleikaumræðuna alla, að það þyrfti að finna einhverja leið til þess að koma hæstv. ríkisstjórn út úr þeim ómöguleika sem hún telur vera fyrir hendi ef þjóðarviljinn fellur ekki að vilja hæstv. ríkisstjórnar. Skildi ég hann rétt?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvernig hann sér fyrir sér atvinnustefnu okkar Íslendinga og þróun atvinnulífs ef við skiptum ekki um gjaldmiðil. Nú er margbúið að fara yfir rökin fyrir því að annaðhvort ættu Íslendingar að halda áfram með krónuna eða ganga í Evrópusambandið og taka upp evru í framhaldinu, þeir tveir kostir séu í stöðunni þegar búið er að velta við öllum steinum.

Á síðasta kjörtímabili lagði ríkisstjórnin sem þá var við lýði mikla áherslu á nýsköpun og ýtti undir þá atvinnustefnu. Það hefur sýnt sig að sprotunum vegnar vel til að byrja með í styrkjaumhverfi og með skattafslætti en síðan þegar þeir eru orðnir stórir og þurfa að fá meira rými er rekstrarumhverfið á Íslandi ekki hentugt. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér slíka atvinnustefnu ef við göngum ekki í Evrópusambandið og tökum upp evru í framhaldinu?