143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikið verið að tala um tímaramma í þessari umræðu og að eitt og annað hafi ekki tekist innan þess tímaramma sem lagt var upp með. Þetta er bara það stórt mál að menn geta ekki leyft sér að mínu viti að setja einhvern sérstakan tímafrest á það.

Það var sagt, segir hv. þingmaður, og því hefur verið haldið fram í þessum ræðustól að það komi fram í nefndaráliti utanríkismálanefndar frá 2009, sumir hafa haldið því fram, það gerði einn þingmaður t.d. fyrr í dag. Ég vil bara segja: Það stendur ekki í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar sem ég þekki býsna vel. Það viðhorf kemur fram í einu fylgiskjali sem kemur ekki frá nefndinni sjálfri, þ.e. að hægt sé að hugsa sér að þetta geti gerst jafnvel á 18 mánuðum eða eitthvað þess háttar. Það kemur hvergi fram í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar og það er alveg meðvitað. Mér var ljóst að þetta yrði tímafrekara og það eru mörg viðtöl við mig frá þessum tíma sem formanns utanríkismálanefndar frá sumrinu 2009 þar sem ég sagði: Ég tel raunhæft að þetta mál verði til lykta leitt (Forseti hringir.) í fyrsta lagi á árinu 2013. Það sagði ég árið 2009, miðað við það (Forseti hringir.) að viðræðurnar hæfust þá. Þær drógust aðeins í upphafi, þannig að ég tel mig vera með algjörlega hreinan skjöld í þessu máli.