143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir hvað þarf að koma til svo að hægt sé að vinna í friði í þessu máli. Það hefur ekki verið í boði af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er vandamálið sem við er að etja.

Virðulegur forseti verður að axla ábyrgðina á því að rjúfa friðinn í þinginu. Það þýðir líka að hann verður að skikka ráðherra ríkisstjórnarinnar til að sitja hér í kvöld og fram á nótt. Það er lágmarkskrafa að þeir ráðherrar sem hafa gengið opinberlega á bak orða sinna sitji við þessa umræðu. Það er lágmark að forsætisráðherra sitji umræðuna, allir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. Við höfum hlíft þessu fólki hingað til, leyft því að sinna sínu og taka ekki þátt í lýðræðislegri umræðu. Á meðan eru haldnir fundir sem er uppselt inn á þar sem prófessorar við háskólann fjalla um vandann sem íslensk stjórnmál eru komin í vegna þess að umræðan snúist um form en ekki efni. Við höfum hlíft ráðherrunum við því að taka þátt í efnislegri umræðu. (Forseti hringir.) Það er komið nóg af því. Forseti verður (Forseti hringir.) að tryggja viðveru þessa fólks hér (Forseti hringir.) þar til umræðu lýkur.