143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að það er fullt tilefni til að kalla eftir fundi þingflokksformanna. Hér er verið að vitna í eitthvert samkomulag þar sem hæstv. utanríkisráðherra vísar í samtöl á þriðjudaginn var sem hafi falið í sér að við hefðum mátt vita að hér yrði kvöld- og næturfundur í kvöld, ellegar fundur á morgun. (Gripið fram í: Það er ekki hægt að funda á morgun.) Þetta er ekki boðlegt, virðulegur forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Til að við getum endurreist hér einhvern vinnufrið óska eftir því að forseti boði til fundar þingflokksformanna, að við leiðréttum hér kúrsinn og vitum um hvað við erum að tala. Það er algjörlega fráleitt að bera fram eitthvert ímyndað samkomulag og ætlast til þess að við höldum áfram eðlilegum þingstörfum.

Hér hefur átt sér stað góð og málefnaleg umræða 11. mars, 12. mars og 13. mars — og hvað er að? Hvað gerðist? Hvað kom upp? Af hverju er ekki bara (Forseti hringir.) hægt að halda þingfundum áfram eftir helgi eins og til stóð? (Forseti hringir.) Hvað gefur tilefni til þess að beita þessu ofbeldi allt í einu núna? Er það eitthvað frá hæstv. utanríkisráðherra? (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Hvað sagði …?) Ég er mjög hugsi yfir því sem hann er að segja hérna. (Gripið fram í: Hvað sagði …?) (Gripið fram í: … hætta að ljúga hér í þingsalnum.) (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Þingmenn eru beðnir um að gæta orða sinna, líka þegar þeir sitja í sætum sínum.)