143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

lengd þingfundar.

[18:44]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er orðið þyngra en tárum taki hversu illa þessari ríkisstjórn gengur að skapa sátt í samfélaginu um nokkurn skapaðan hlut. Hér er enn gengið fram og reynt að skapa úlfúð í þinginu.

Ég vil að það komi fram hér, vegna þess að ég er ekki enn þá kominn á mælendaskrá með seinni ræðu mína, að ég mun fara fram á að viðstaddir ræðu mína í nótt verði forsætisráðherra og allir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins. Ég vil að það fólk sem er bert að ósannindum og gengur á bak skýrum kosningaloforðum sitji hér. Við erum búin að fá að sjá það, og það er umhugsunarefni fyrir framgang þingræðis í landinu, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa ekki virt okkur þess að flytja ræðu í þessu máli, þeir hafa ekki haft hugrekki til þess að útskýra sín sögulegu svik.

Það er skömm þeirra sem mun uppi verða vegna þeirrar framgöngu (Forseti hringir.) en það er lágmark að þeir sitji þó hér til að (Forseti hringir.) hlusta á málflutning annarra þingmanna.