143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það kom kannski ekki nógu skýrt fram það sem ég talaði um áðan. Ég velti fyrir mér hvort ekki standi til að setja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra á mælendaskrá. Hann óskaði eftir því áðan að taka þátt í umræðum og ég held að fullt tilefni sé til að við hlustum eftir því sem hann hefur fram að færa, sem eru vonandi einhver skýr skilaboð til þingsins.

Ég vil líka árétta spurningu mína til hæstv. utanríkisráðherra um hvort hann gæti hugsað sér að segja eitthvað skýrt um það hvort hann telji að það geti ekki orðið viðunandi efnisleg niðurstaða sem byggir á þeirri grundvallarhugsun að þjóðin komi að næstu ákvörðun í málinu, þ.e. ekki verði slitið fyrr en þjóðin hefur fengið að segja sitt álit á því. Mér finnst það mikilvægt og ég skil ekki hvað hæstv. utanríkisráðherra er að gera hérna á fundinum. Ætlar hann ekki að taka þátt í því að eiga hér skoðanaskipti? Heyrist ekki alveg örugglega (Forseti hringir.) það sem við erum að segja í ræðustólnum? Svo vil ég spyrja hvort það sé ekki (Forseti hringir.) rétt skilið að hæstv. fjármálaráðherra hafi beðið um orðið hérna áðan.