143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrir árið 2009 mátti alveg spyrja sig: Hvernig ætli það mundi ganga hjá okkur Íslendingum að efna til viðræðna við Evrópusambandið um aðild að Evrópusambandinu og kannski sérstaklega jafnvel þótt ekki væri skýr meiri hluti fyrir inngöngu í Evrópusambandið á Alþingi? Fyrir árið 2009 var það ágætlega gild spurning í íslenskum stjórnmálum. Á árinu 2014 finnst mér hún hins vegar hafa misst gildi sitt vegna þess að í millitíðinni höfum við fengið mjög skýr svör við spurningunni. Við eigum að draga lærdóm af þeirri reynslu sem við höfum öðlast í millitíðinni og við eigum að byggja á þeirri reynslu þegar við tökum ákvarðanir um framhaldið. Þegar spurt er um þá tilteknu þjóðaratkvæðagreiðslu sem hv. þingmaður les hér upp úr kosningastefnu sinni (Gripið fram í.) er auðvitað freistandi að spyrja: Hvað varð um loforð Samfylkingarinnar um að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru á síðasta kjörtímabili, (Forseti hringir.) sem ekki gerðist? Ég vek athygli á því að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla getur hæglega farið fram um þá spurningu sem liggur fyrir þinginu.