143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Fram hefur komið hjá þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins að hæstv. iðnaðarráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, hefur lögmæt forföll frá fundinum. Eftir stendur að hæstv. ráðherrar, Illugi Gunnarsson og Kristján Þór Júlíusson, hafa engin slík lögmæt forföll fram að færa. Ég kalla enn eftir því að þeir sinni starfsskyldum sínum, komi hingað til fundar og geri grein fyrir því hverju viðsnúningur þeirra sætir í því máli sem er á dagskrá og hvet enn hæstv. innanríkisráðherra til þess að taka þátt í umræðunni. Hún hefur haft ágætan atbeina að málum á fyrri stigum.

Ráðherrar Framsóknarflokksins virðast vera ófáanlegir til þess að koma hér í hús. Við hljótum því að beina orðum okkar til hæstv. utanríkisráðherra. Hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson lýsti því yfir áðan að tillagan væri svo ómöguleg, sem þeir sjálfir hafa nýlega lagt fram, að utanríkismálanefnd yrði að vinna með það hvernig þjóðin gæti haft aðkomu að tillögunni. Tekur hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) undir þá yfirlýsingu formanns Sjálfstæðisflokksins?