143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[23:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það er einhver svefngalsi kominn í mig en mér finnst þetta hálfhlægilegt. Hæstv. ráðherra var hérna fyrir ekki svo löngu, heiðraði Alþingi góðfúslega með nærveru sinni og meira að segja heilli ræðu, jafnvel andsvörum. Annað eins hefur ekki sést í um það bil þrjár vikur.

Áðan gerði hann mjög lítið úr muninum á því að gera hlé á viðræðum við Evrópusambandið og hins vegar því að slíta viðræðunum. En núna, ef ég hef skilið hann rétt, sem ég er ekki viss um að ég geri, vill hann halda þjóðaratkvæðagreiðslu eða opnar alla vega á það að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa tvo kosti. Ég skil ekki, virðulegi forseti, hvað er í gangi. Enn síður skil ég hvers vegna ekki er búið að ræða við þingflokksformenn um þetta eða bara þingið eða einhvern hérna. Af hverju lesum við þetta fyrst í DV? Það er annað sem ég skil ekki alveg. Hvers vegna má ekki ræða við þingið um þessa hluti? Hvaðan kemur þessi feimni við þingræðið og (Forseti hringir.) að ræða málin hér (Forseti hringir.) þar sem okkur er ætlað að ræða þau?