143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allt frá því fyrst ég kom að þessu máli þegar ég var í Samfylkingunni árið 2002 þegar sú hreyfing var orðin tveggja ára, var atkvæðagreiðsla meðal allra félagsmanna um það hvað við ættum að gera varðandi ESB, hvort við ættum að skoða aðild með því að sækja um. Mikill meiri hluti valdi þá leið á þeim tíma. En það lá alltaf fyrir alveg frá þeim tíma og allt ferlið, líka þegar hér fór í gegn þingsályktunartillaga um málið 2009, að það væri ekki Alþingi sem væri að fara með íslenska þjóð inn í Evrópusambandið, það væru ekki einstakir þingmenn, það væri ekki Samfylkingin heldur gæti þjóðin ein skorið úr um það hvort við yrðum aðilar að Evrópusambandinu eða ekki. Það verður alltaf þjóðaratkvæðagreiðsla.

Þess vegna held ég að við verðum að horfast í augu við það að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla og ég trúi því að hægt sé að ná miklu breiðari sátt en náðst hefur hingað til um málið.

Varðandi tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tel ég gallann á henni vera hversu seint þjóðaratkvæðagreiðslan er sett upp. Þar er talað um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabilsins. En ef við erum að tala um að menn fresti málinu og haldi þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrst þá sé ég ekkert standa í veginum fyrir því að tillaga VG geti orðið grundvöllur að niðurstöðu.

Það er auðvitað margbúið að ræða það hér og sýna fram á að ríkisstjórn sem ekki treystir sér til þess að lúta niðurstöðu úr þjóðaratkvæðagreiðslu geti varla setið áfram. Ég hef aftur á móti sagt að ég sjái ekkert að því að ríkisstjórn sitji áfram þó að hún verði undir í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það eru því möguleikar í þessari stöðu. Það er það sem við höfum verið að reyna að þvinga fram hér, að þjóðin fái að tala, að fundinn verði farvegur þar sem við getum leitt þetta mál í ákveðinn farveg svo við þurfum ekki að vera hér (Forseti hringir.) og þvarga um þetta mál endalaust. Ég el (Forseti hringir.) þá von í brjósti að það sé enn þá mögulegt.