143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég er mjög hugsi yfir því hvað ræðurnar í þessu máli eru stuttar því að mér finnst við rétt ná að snerta yfirborðið. Sem betur fer er það oft þannig í góðum andsvörum að maður getur náð aðeins meiri dýpt, en ég held að tilefni hefði verið til að hafa miklu lengri ræðutíma og það sé eitthvað fyrir okkur að hugsa inn í framtíðina þegar um svona stór og viðamikil mál er að ræða.

Böndin hafa borist að einhverri lausnarnálgun í þeirri erfiðu stöðu sem upp er komin, svo ég fari ekki út í aðdraganda þess eða klúðurslega framsetningu og tímasetningu og allt sem því fylgir, sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á. Í því skyni lögðum við fram, þingmenn og þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, tillögu til þingsályktunar. Það er tillaga sem byggir í raun og veru á þeim pólitíska veruleika sem upp er kominn frekar en um sé að ræða draumsýn okkar í þessu tiltekna máli. Ég tek undir það sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur sagt að segja megi að okkur renni blóðið til skyldunnar að því er varðar ábyrgð á upphafi málsins og að við teljum að við eigum að koma að því með ábyrgum hætti að leiða það áfram.

Þetta er tilraun til þess, þessi þingsályktunartillaga. Ég hef orðið þess áskynja þegar ég hef spurt þingmenn Samfylkingarinnar, og raunar fleiri flokka, út í þetta mál og þá sérstaklega aðildarsinna, má kannski segja, að mönnum þykir óþægilegt hið víða tímabil sem þarna er undir, þegar sagt er „fyrir lok kjörtímabilsins“ og það látið duga, þótt það sé svo sem reifað í greinargerð að það geti verið með ýmsum hætti. Ég ætla að biðja hv. þingmann að varpa ljósi á hvað hún telji vera tímabil sem gæti verið grunnur að einhverri sátt eða nálgun í þessu máli. Værum við þá að tala um á allra næstu vikum eða mánuðum eða (Forseti hringir.) innan hvaða tímamarka teldi hún(Forseti hringir.) að niðurstaðan gæti verið ásættanleg?