143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[03:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er komið að lokum umræðu um þessa tillögu sem við höfum verið að ræða undanfarna daga. Ég ætla að óska eftir því formlega að hæstv. forseti og starfsfólk skrifstofunnar taki saman hversu margar mínútur ráðherrar voru í ræðustóli annars vegar og hins vegar hver flokkur fyrir sig. Ég held að það skipti miklu máli að menn átti sig á því að þessi stærsta tillaga sem er borin fram á þessu þingi sem komið er, og jafnvel þótt litið sé til margra ára, sé fullkomlega hunsuð af þeim sem leggja hana fram. Einstakir þingmenn komu sáralítið hingað og það finnst mér ógnvekjandi fyrir lýðræðislega umræðu í samfélaginu, ekki hvað síst frá hæstv. forsætisráðherra sem kemur aftur og aftur í fjölmiðla og kallar eftir rökræðu.

Við hvern á ég að rökræða? (Forseti hringir.) Hæstv. forsætisráðherra hefur aldrei komið í þingið og rökrætt, ekki nokkurn skapaðan hlut. Ætla menn að sitja undir þessu án þess að gerð sé athugasemd við það?

Ég biðst velvirðingar, hæstv. forseti, ég hefði aldrei látið mér detta í hug að ég yrði hér jafn oft út af störfum hæstv. forseta. (Forseti hringir.) Hann á það sjálfsagt ekki skilið en ég ætla að biðja um að (Forseti hringir.) á þessum fundum sem haldnir eru, hvort sem er með þingflokksformönnum eða formönnum flokka, að athugasemdum við fjarveru stjórnarþingmanna verði komið á framfæri.