143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[13:59]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Enn einu sinni þurfa þingmenn að taka til máls undir þessum dagskrárlið til að ræða um þingstörfin og hvernig þau ganga fram. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að ræða um það sem kom fram í fréttum í morgun og var upphaf þessarar umræðu.

Ég tel það alveg hiklaust vera langbestu leiðina til þess að koma á skilvirku þingstarfi og að við getum haldið áætlun og unnið þau fjölmörgu mál sem eru á dagskrá ef hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, og aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem gáfu þjóðinni þau loforð fyrir kosningar að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda ætti viðræðum áfram við ESB eða ekki — því fyrr því betra sem formaður Sjálfstæðisflokksins talar skýrt um að hann ætli að standa við þetta loforð. Það mun held ég liðka mest fyrir þingstörfum.

Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hefur kallað þá vegferð sem núverandi forusta Sjálfstæðisflokksins er í, þ.e. ef þeir ætla að svíkja það loforð, stærstu svik í íslenskri stjórnmálasögu.

Virðulegi forseti. Ég hvet (Forseti hringir.) formann Sjálfstæðisflokksins til að stíga fram og lýsa því yfir (Forseti hringir.) að staðið verði við þetta loforð. Það (Forseti hringir.) mun liðka mest fyrir þingstörfum.