143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

endurupptaka dómsmáls.

[14:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Sem kunnugt er var á vegum innanríkisráðuneytisins gerð ítarleg rannsókn á rannsóknaraðferðum lögreglu í svokölluðum Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Var skýrslu um það efni skilað snemma árs 2013. Niðurstöður rannsóknarinnar voru afgerandi, þ.e. að framin hefðu verið alvarleg brot á sakborningum við rannsókn málanna þar sem flest bendir til að þvingaðar hafi verið fram játningar þeirra sakborninga sem síðar voru dæmdir til fangelsisvistar með því að beita þá harðræði við rannsóknina.

Augljóst er að með gerð þessarar rannsóknarskýrslu er málinu langt frá því að vera lokið enda trúverðugleiki réttarkerfisins undir. Embætti ríkissaksóknara hefur verið með málið til athugunar, embættið kallaði eftir því hjá dómþolum og aðstandendum þeirra eftir atvikum að þeir tækju afstöðu til þess hvort þeir óski eftir endurupptöku málanna.

Ef þessir einstaklingar eiga að geta veitt embættinu viðunandi svör byggð á lagalegum sjónarmiðum þurfa þeir eðli málsins samkvæmt aðstoð lögmanna, það er augljóst. Þetta hefur ríkissaksóknari líka undirstrikað í bréfi þar sem fram kemur það mat embættisins að til þess að hægt sé að beiðast endurupptöku á málunum þurfi áður að fara fram viðamikil og ítarleg rannsókn á öllum sakargögnum málsins sem eru mikil að burðum. Dómþolar og aðstandendur þeirra geta ekki staðið að slíkri rannsókn. Þá er það óeðlilegt að embætti ríkissaksóknara stæði að henni þar sem það er hluti af réttarkerfinu sem er til skoðunar. Það er ekki hægt að leggja það á dómþola og aðstandendur þeirra eina ferðina enn að ætla þeim að fara í eina óvissuferðina og ríkisvaldið skuldar þessu fólki aðstoð.

Eins og hæstv. innanríkisráðherra er vel kunnugt um hef ég allar götur frá því í ágúst á síðasta ári og reglulega síðan gengið eftir því við ráðherra að fá við því svör hvort stjórnvöld hyggist veita dómþolum og aðstandendum slíka aðstoð svo að þeir geti svarað fyrirspurnum ríkissaksóknara. Ráðherra hefur iðulega tekið málaleitan minni vel, þ.e. í samtölum, þó að lítið hafi gerst, en nú vil ég fá að vita afdráttarlaust um niðurstöður í þessu efni einfaldlega vegna þess að komi ekki fram skýr vilji ráðherra og ríkisstjórnar til að veita (Forseti hringir.) slíka aðstoð mun ég flytja um það sérstakt mál hér á þinginu.