143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[14:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kann nú að vera sú skýring á að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fá ekki þessi kostaboð frá olíufélögunum að þau viti sem er að það sé líklega bílstjórinn hans sem fylli á tankinn meira en ráðherrann sjálfur og fái þá kannski tilboðin.

Ég endurtek að ég undrast þá aðferðafræði að velja ekki frekar einhverja fáa gjaldflokka, skýra gjaldflokka og hafa þá lækkunina sýnilega þannig að hægt sé að festa frekar hönd á því að hún gangi til neytenda.

Í öðru lagi verð ég að segja að mér finnast þetta ekki brýnustu forgangsútgjöld sem þarna verða undir hjá hæstv. ríkisstjórn miðað við aðstæður í dag. Maður hefði haldið að sýnd yrði meiri hugkvæmni í því að reyna með sýnilegum hætti að lækka einhver tiltekin gjöld þannig að það kæmi beint til góða fjölskyldum og kannski ekki síst þeim sem við reyndum að verða sammála um að þyrftu mest á því að halda, einhver slík útgjöld. Jú, við getum sagt að flestir þurfa að reka fjölskyldubíl, en hvað með brennivín og tóbak? Er það virkilega þannig að það sé ástæða til að smyrja þessum lækkunum út yfir áfengis- og tóbaksgjald líka? Ekki er það nú mikil hugkvæmni, finnst mér. Ég hefði nú haldið að væri eitthvað annað og brýnna í útgjöldum sem mætti þá skoða, svo sem eins og ef menn vildu lækka komugjöldin á heilsugæslustöðvarnar og millifært þá bara tekjur, þess vegna arð frá ÁTVR ef á að taka hann inn á móti í það í fjáraukalögum. Það væri sýnilegt, kæmi sannarlega til góða þeim fjölskyldum sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda. Þar er um einhvers konar nefskatt að ræða sem lítið frjálst val stendur gagnvart ef menn verða að sækja sér þjónustu þangað o.s.frv.

Þannig að ég er nú að reyna að fiska upp úr hæstv. ráðherra og batt vonir við að hann a.m.k. opnaði á það að það mætti skoða það í meðförum þingsins að breyta þessu og taka þetta út í einhverjum fáum, skýrum liðum og helst þeim sem virkilega kæmu (Forseti hringir.) þá einhverjum hópum til góða sem við værum sammála um að hefðu þörf fyrir það.