143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það er ekki fyrirboði um að við munum auka álögurnar enn frekar. Ég tel miklu líklegra að við munum endurskoða gjaldakerfið í heild sinni og færa okkur meira yfir í að skoða raunverulega notkun til dæmis á vegakerfinu. Við erum að gera það í gegnum selda lítra í dag og álagningu á hvern seldan lítra, en til að mynda rafbílavæðingin mun raska öllum forsendum þessa kerfis og kalla á nýja hugsun.

Varðandi þessar breytingar að öðru leyti vek ég athygli á því að gjöldin eru miðað við verðlagsforsendur að dragast saman að raungildi þar sem við ætlum með breytingunum að hækka gjöldin minna en við gerum ráð fyrir að verðlag hækki á árinu, og í því einu og sér er ákveðin stefnubreyting miðað við það sem áður var.

Að lokum um öndunarvélarnar. (Forseti hringir.) Auðvitað ber að fara mjög varlega í breytingar sem snerta kostnað við kaup slíkra tækja og notkun (Forseti hringir.) en þar verðum við að horfa til þess að við förum fram á ákveðið þjónustustig, við gefum (Forseti hringir.) stofnununum fjárveitingar og gjaldskrárnar verða síðan að hjálpa til ásamt með (Forseti hringir.) fjárheimildum stofnununum að standa undir þjónustustigi.