143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður benti á. Ég var búinn að gleyma að innritunargjöldin í háskólana koma ekki til greiðslu fyrr en í haust þannig að nægur tími væri til að hverfa frá þeirri hækkun, eða draga eitthvað úr henni, og heita síðan háskólunum í fjáraukalögum uppbót á þeim tekjumissi þannig að þeir kæmu jafnsettir út. Í sjálfu sér væri hægt að bakka með komugjöld í heilsugæslustöðvar, draga úr þeirri hækkun þó að hún sé komin til framkvæmda og búið að rukka í einhverja mánuði. Reyndar hefur þetta frumvarp tafist það mikið hjá hæstv. ráðherra að áhrif þess verða minni en til stóð; ef það tekur ekki gildi fyrr en 1. apríl eða jafnvel 1. maí, en frumvarpið er þannig fram sett að það hefði átt að taka gildi fyrir nokkrum vikum, eins og kunnugt er.

Já, ég held að erfitt sé að komast að annarri niðurstöðu en að þetta sé meðvituð ákvörðun og þetta birti meðvitaða forgangsröðun. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns þá er það til á prenti þegar hæstv. fjármálaráðherra segir, ég man það alveg, þetta rifjaðist upp fyrir mér, ég heyrði þetta: Það verða bara einhver gjöld lækkuð. Þetta var sagt fyrir jólin, upp úr 21. desember, þegar yfirlýsingin var gefin. Ég spurði aðila vinnumarkaðarins hvort þeir vissu hvar borið yrði niður og þeir neituðu því. Eina sem fyrirheit hefðu verið gefin um væri að ígildi þessara lækkana, upp á 460 milljónir, mundi koma einhvers staðar fram.

Þá er spurning hvort hv. Alþingi — það á nú að heita svo að það hafi fjárveitingavaldið — á ekki bara að taka á sig rögg og útfæra þetta með þeim hætti sem það telur skynsamlegastan. Þess vegna held ég að þessi umræða hafi verið mjög gagnleg. Hún hefur skýrt það hvar menn telja eðlilegast að bera niður í sambandi við heilbrigðisútgjöldin eða menntaútgjöldin og hafa til dæmis lýðheilsusjónarmið og umhverfissjónarmið að leiðarljósi.