143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:18]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessi svör. Ég spurði á hvaða forsendum ákvörðun ríkisstjórnarinnar var byggð þegar hún ákvað að hlusta á þá sem vilja láta lækka verð á brennivíni en ekki á hina sem vilja láta koma til móts við heilsugæsluþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu, hvers vegna þessar ákvarðanir voru teknar. Hann fór vítt og breitt yfir það en mig vantar nánara svar við því.

Þetta minnti okkur á að það er ekki allt að lækka. Margt hefur hækkað, þar á meðal gjöldin í heilsugæslunni. Ráðherrann fór yfir það. Ég minni á að þessi gjöld koma einhvers staðar frá. Þau koma úr vösum þeirra sem þurfa að sækja þjónustu til heilsugæslunnar. Það er ekki rétt að þessar gjaldskrárhækkanir hafi komið heilsugæslunni til góða vegna þess að jafnframt voru gerðar auknar sértekjukröfur á heilsugæsluna. Þetta er því ekki aukning á þeim fjármunum sem hún hefur handa á milli.

Síðan er það hin umræðan sem hæstv. fjármálaráðherra bryddar hér á, um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar, og segir að þær þjóðir sem hafa einkavætt heilbrigðisþjónustuna hafi uppskorið ríkulega. Ég vil gjarnan fá að heyra dæmi. Svíar eru að hverfa af þessari braut aftur vegna þess að þetta hefur reynst óhagkvæmt og miklu dýrara.

Síðan hitt, að menn megi ekki rugla saman einkarekstri og einkavæðingu, það er alveg rétt. Það kann að vera munur þarna á milli. Við höfum búið við ágæta blöndu hvað þetta snertir. (Forseti hringir.) En við erum núna komin með ríkisstjórn sem vill blanda þessu saman á annan hátt og færa einkaaðilum (Forseti hringir.) meiri ítök innan heilbrigðisþjónustunnar en þegar eru orðin. Það tel ég illt. (Forseti hringir.) Það er ekki til góða fyrir (Forseti hringir.) skattborgarana.