143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

staða framhaldsskólans.

[15:36]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér málefni framhaldsskólans í skugga verkfalls framhaldsskólakennara þar sem 1.500 kennarar eru í verkfalli og um það bil 25 þús. framhaldsskólanemendur eru án kennslu.

Enn og aftur verða kjör kennara og starfsskilyrði þeirra bitbein í kjaradeilu þar sem kennarar telja sig réttilega ekki njóta sömu kjara og aðrar stéttir hjá ríki og einkaaðilum, í stéttum sem eru með sambærilega menntun. Á sama tíma blandast inn í umræðuna hugmyndir og áætlanir um breytingar á framhaldsskólanum, kröfur eða hugmyndir hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um breytingar á skólakerfinu, styttingu á námi til lokaprófs, vinnutíma kennara og starfsskyldur. Gott væri ef hæstv. ráðherra gæti upplýst þingheim um þessar hugmyndir en formaður Félags framhaldsskólakennara vekur athygli á því að þetta útspil hæstv. ráðherra inn í umræðurnar hafi tafið og þvælst fyrir á liðnum klukkutímum og dögum.

Enn og aftur verða uppeldis- og heilbrigðisstéttir að berjast fyrir kjörum sínum með verkföllum eða uppsögnum. Aðilar almenna markaðarins hafa samið og það á að binda kennara á sama bás óháð því hvernig laun hafa þróast, óháð því hvernig ríki og almenni markaðurinn verðmetur vinnu starfsstétta með sambærilega menntun.

Þetta er þeim mun athyglisverðara þar sem komið hefur fram í fjölmiðlum og að hluta til í umræðunni á Alþingi að til standi að gera róttækar breytingar á framhaldsskólanum og skólahaldi almennt í landinu. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur gefið yfirlýsingu um að framhaldsskólinn skuli styttur, hæstv. ráðherra ætli að sjá til þess um leið og hann boðar hvítbók sem draga á fram helstu álitamál og viðfangsefni í íslensku skólastarfi. Bókin á að verða til þess að skapa umræðu svo hægt verði að leita sameiginlegra lausna — eða var það ekki ætlunin? Svarar hvítbókin því með hvaða hætti hæstv. ráðherra hyggst stytta nám til lokaprófs?

Upplýsingar eru allar misvísandi og óljóst hvert hæstv. ráðherra hyggst stefna. Verða gerðir kjarasamningar um framtíð og fyrirkomulag framhaldsskólans á Íslandi af fjármála- og efnahagsráðuneytinu? Verður það gert í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið?

Hvenær fáum við þessa hvítbók? Hún átti að vera komin í desember og er ekki komin enn. Eigum við von á því að enn eitt valdboðið komi frá hæstv. ríkisstjórn þar sem Alþingi er stillt upp frammi fyrir gerðum hlut og gert að samþykkja lög til að uppfylla kjarasamninga?

Ég nefni þetta hér vegna þess að skólar og menntamál eru gríðarlega mikilvægur málaflokkur í samfélaginu, þeir snerta nánast hvert heimili í landinu. Allir hafa skoðun á málinu og þurfa að fá tækifæri til að ræða þær hugmyndir en um leið er algjör nauðsyn að ná sem allra víðtækastri sátt um þennan málaflokk.

Við erum í miðri umræðu um styttingu námstíma til stúdentsprófs, við erum í umræðu um brotthvarf úr skóla og fjöldamörg önnur atriði. Við erum að glíma við það að hér er menntunarstig í landinu frekar lágt og við þurfum að efla framhaldsskólann til að ná þar betri árangri. Við fáum skýrslu eftir skýrslu um það að hlutirnir mættu vera með öðrum hætti en á sama tíma erum við með lög frá árinu 2008 og síðan aðalnámskrá frá 2011 sem ekki er komin til framkvæmda. Þá spyr maður: Hvað af þessum álitamálum, þ.e. þeim málum sem eru í lögunum frá 2008 og aðalnámskránni, er hæstv. ráðherra ósáttur við? Hvaða hugmyndir hefur hann um breytingar á þeim? Ætlar hann að kasta þeirri vinnu sem kom frá samflokksráðherra hans á þeim tíma, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, 2008? Ætlar hann að henda þeirri vinnu? Þar var byggt upp á sveigjanleika, þar var ekki rætt um að stytta skólann í þrjú ár, þar var rætt um að menn gætu hjálpað fólki til þess að komast hraðar í gegnum skólann með ýmsum leiðum og aðferðum.

Það er það sem mér finnst skipta máli að komi hér fram á Alþingi, þ.e. hvaða áform eru hjá hæstv. ráðherra hvað varðar framhaldsskólann, varðandi þau lög sem hafa verið í gildi en ekki komið til framkvæmda vegna þess að það skortir peninga.

Á sama tíma fáum við skýrslu frá Ríkisendurskoðun þar sem vakin er athygli á því að framhaldsskólinn er í miklum rekstrarvanda og kominn að þessum frægu þolmörkum. Það skiptir miklu máli að vel verði að honum hlúð. Það snýst um forgang og þar þarf framhaldsskólinn að vera í forgangi.

Þess vegna eigum við að bæta kjör kennara sem og starfsaðstæður framhaldsskólans um leið og við hefjum sókn til þess að bæta skólastarf í heild. Það á að vera að undangenginni vandaðri umræðu þar sem reynt verður að koma til móts við sem flest sjónarmið, tryggja jafnrétti til náms, bæði hvað varðar efnahag, búsetu og fjölbreytileika nemendahópsins, reka hagkvæman en skilvirkan og nútímalegan framhaldsskóla með öflugum og velmenntuðum kennurum sem hafa tileinkað sér nýjustu tækni (Forseti hringir.) og skilning á þörfum og getu nútímanemenda.