143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

fiskeldi.

319. mál
[17:10]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru þó nokkrar spurningar. Ég næ kannski ekki að svara þeim öllum. Ég nefndi að til að mynda í Noregi er ein aðferð notuð til að bjóða upp. Það getur líka verið að leyfin séu hreinlega seld á ákveðnum svæðum, það fer auðvitað eftir byggðarlegum sjónarmiðum. Menn gera ýmislegt. Ég þori ekki að fara með upphæðirnar, þær eru umtalsverðar, enda er rétt að muna að lax er seldur býsna háu verði um þessar mundir, umtalsvert hærra verði en t.d. annar hvítfiskur eða fjórum sinnum hærra.

Varðandi skipulagslögin og hvernig sveitarfélögin koma að því minnir mig að þau nái út fyrir netlög. Menn hafa rætt um 115 metra. Menn hafa verið að ræða um hvort eigi að fara lengra. Þetta er t.d. eitt af þeim umræðuefnum sem fara fram núna varðandi skipulag hafs og stranda sem er að hefjast. Það er einmitt samráðsfundur fljótlega með hagsmunaaðilum, þar á meðal sveitarfélögunum. Þar getum við horft til hvernig menn hafa haft þetta í Skotlandi og annars staðar á Norðurlöndunum. Það er með aðeins mismunandi hætti, en iðulega er samstarf á milli ríkis og sveitarfélaga. Það er spurning hver fer með forræðið.

Varðandi heilbrigðiseftirlit, áður hafa verið gefin út leyfi og fylgst með þegar um nákvæma stærð er að ræða. Til einföldunar er allt sett til Umhverfisstofnunar núna. Það útilokar auðvitað ekki, þegar menn eru búnir að einfalda hver fari með stjórnsýsluna á einhverju verkefni, að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna víðs vegar um landið sé hugsanlega besti aðilinn til að fara með eftirlit seinna meir, en það er allt önnur ákvörðun og tengist ekkert þessu frumvarpi. Hér erum við fyrst og fremst að einfalda stjórnsýsluna og eftirlitið og síðan verður áhugavert að skoða með hvaða hætti eftirlitið verður í framhaldinu þegar menn sjá fyrir sér þessa uppbyggingu.

Tækifærin í fiskeldi á Íslandi eru gríðarleg og sóknarfæri mikil (Forseti hringir.) og mikill hugur í mörgum fyrirtækjum sem eru að taka til starfa.