143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

veiðigjöld.

372. mál
[19:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Ég biðst forláts á því að hafa talað þannig að hægt var að rugla saman veiðigjaldsnefndinni og samráðsnefndinni. Ég velti samt fyrir mér með hliðsjón af því sem gekk á síðast þegar þessu var breytt, hvort ekki hefði verið eðlilegt að kalla samráðsnefndina saman fyrir fyrirhuguðu breytingarnar sumarið 2013, ég spyr því að ég veit það ekki. Þar var mikið rætt um hið sérstaka veiðigjald. Samráðsnefndinni var, eftir því sem mér skilst á lögunum, sérstaklega gert að fjalla um fyrirhugaðar ákvarðanir veiðigjaldsnefndar um sérstakt veiðigjald og það var mikið til umræðu. Ríkisstjórnarflokkarnir sögðu að það væri ekki hægt, það væri ómögulegt að innheimta þetta sérstaka veiðigjald.

Mér finnst svolítið skrýtið að ekki komi fram í umræðunni að hún hafi verið kölluð saman. Svo hvarflar líka að mér að kannski hafi ekkert tilefni verið til þess ef það var einfaldlega ákveðið af ráðherra á sínum tíma.

Þá velti ég aftur fyrir mér hvort veiðigjaldsnefndin hefði ekki átt að koma saman, eins og hv. þingmaður minntist á að eðlilegast hefði verið að gera, að hún hefði tekið þær ákvarðanir sem teknar voru og þá væntanlega verið í sambandi við samráðsnefnd sem hefði síðan talað við Alþingi.

Ég verð að viðurkenna að ég er hálfringlaður gagnvart því hvernig þetta var nákvæmlega á miðað við hvernig það hefði átt að vera. Ég sé ekki alveg að það sem gerðist sumarið 2013 sé í samræmi við þetta. Ég sé engan reiðan yfir því þannig að ég þori ekki að fullyrða það en ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti frætt mig eitthvað meira um það.