143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég get að mörgu leyti tekið undir með honum, það er auðvitað þannig í alþjóðasamskiptum að við eigum samskipti við hin ýmsu ríki á mismunandi forsendum og í mismunandi samhengi. Það er ekki sjálfgefið að þótt snurða hlaupi á þráðinn á einu sviði hafi það áhrif á önnur. Noregur og makríldeilan er ágætisdæmi um það. Þar er um að ræða ágreining út af tilteknu málefni sem hefur raunverulega verið í gangi í mörg ár en á auðvitað ekki að trufla samskipti okkar við Noreg að öðru leyti, eða Færeyinga eftir atvikum.

Hitt er svo annað mál, og undir það get ég líka tekið með hv. þingmanni, að auðvitað kunna að verða svo alvarlegir atburðir eða það stór tíðindi á einstökum sviðum að það geti haft víðtækari áhrif en ella. Ég óttast að þeir atburðir sem við sjáum nú í Úkraínu séu ekki afmarkað tilviljunarkennt atvik heldur beri vott um ákveðna stefnu af hálfu rússneskra stjórnvalda sem ég verð fyrir mitt leyti að segja að ég hafi töluverðar áhyggjur af. Ég er ekki komin á þann stað að segja að við eigum að láta það hafa áhrif á okkur í norðurslóðasamstarfi eða á öðrum þeim vígstöðvum þar sem við eigum samskipti við rússnesk stjórnvöld en atvik af þessu tagi hljóta að vekja athygli og áhyggjur vegna þess að þau rök sem Rússar og bandamenn þeirra á Krímskaga nota eru þess eðlis að þau mætti nota mun víðar (Forseti hringir.) og gætu þess vegna verið til vitnis um enn frekari útþenslustefnu en þegar hefur birst. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv þingmann hvort hann deili þessum sjónarmiðum með mér.