143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[14:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú vildi ég að ég hefði meiri tíma til þess að ræða þetta efni sérstaklega vegna þess að það er afskaplega mikilvægt.

Þær vekja líka ugg með mér þessar fregnir um NASA, en þarna liggur einmitt áskorun nútímans. Í gamla daga voru mismunandi þjóðir og þær þurftu bara að hugsa um sína eigin hagsmuni. En nú erum við vinir Bandaríkjanna, við erum vinir Evrópu o.s.frv., en hvert svæði fyrir sig telur sig ekki þurfa að vernda borgara utan sinna eigin landamæra, sem þýðir að Bandaríkin veigra sé ekkert við því að brjóta réttindi okkar samkvæmt okkar lögum. Sennilega mundum við í þeirra sporum ekki veigra okkur neitt við því heldur, þ.e. gagnvart þeim, mér finnst það að minnsta kosti ólíklegt, enda er þetta allt saman mjög ný þróun og erfitt að sjá fyrir hvernig þetta eigi að ganga í framtíðinni. En það er jú áskorun nútímans að finna út úr því.

Þetta þarf allt að vera alþjóðlegt. Ef við ætlum að hafa friðhelgi einkalífsins í framtíðinni verður það að vera á alþjóðlegum grundvelli. Ríki geta ekki lengur ákveðið fyrir sig sjálf hvaða réttinda borgararnir eiga að njóta nema í samvinnu við önnur ríki, í samstarfi við önnur ríki og með þokkalegri tæknilegri vinnu og tæknilegri upplýsingu almennings alls. Það er kannski erfiðasti hlutinn, það er að fá samfélagið sjálft til að passa dulkóðuð samskipti til dæmis, eitthvað sem er leiðinlegt og flókið en mikilvægt. Þessar ógnir geta valdið hruni í samfélaginu, en góðu fréttirnar eru þær að það hefur ekki gerst enn þá. Við getum enn staðið að því að byggja upp innviði samfélagsins þannig að við séum reiðubúin undir það, þannig að við séum með aukaramma til dæmis, bara eins og menn eru með bensínvélar til að veita rafmagni ef raflínurnar fara. Það er alveg hægt að bregðast við þessu og það er sérstaklega auðvelt þar sem þetta hefur ekki átt sér stað enn þá.

Við höfum tækifærið, við höfum tækifærið til að gera þetta rétt hér á Íslandi (Forseti hringir.) vegna þess að við erum frekar nýlega farin að taka friðhelgi einkalífsins (Forseti hringir.) og vestræn gildi mjög alvarlega. Að sama skapi stöndum við í fyrsta sinn frammi fyrir spurningunum um þjóðaröryggi þannig að við höfum í raun mjög gott tækifæri til að samtvinna þessa tvo þætti.