143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið og það er ánægjulegt að heyra hann staðfesta að það séu að sjálfsögðu uppi full áform um að standa áfram við skuldbindingar okkar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og við verðum þar áfram í samfloti með Evrópuríkjum. Þar hafa Evrópuríkin að mörgu leyti dregið vagninn og verið mjög erfitt að fá ýmsa stóra aðila með og við þekkjum auðvitað stöðu Bandaríkjanna og Kína í þeim efnum.

Hvað varðar EES-gerðirnar langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, af því að ég veit það ekki, hvernig hann sjái hreinlega fyrir sér að hægt verði að rýna þær. Er það með auknum mannafla hjá utanríkisþjónustunni? Nú var hart gengið fram í niðurskurði gagnvart utanríkisþjónustunni á síðustu fjárlögum. Ég velti því fyrir mér hvernig utanríkisráðuneytið á að ráða við að anna því verkefni sem þarna er lagt til. Oft koma upp mjög flókin og tæknileg mál sem koma jafnvel hér til þingsins og þá kemur á daginn, ég vitnaði til bakgrunnsathugunarinnar áðan, að það á eftir að kalla til alla hagsmunaaðila. Þeir eru þá að koma í fyrsta skipti í raun og veru til Alþingis að ræða mál sem hæglega hefði verið hægt að ræða miklu betur áður, að því er virðist. Ég spyr því, miðað við þann niðurskurð sem utanríkisþjónustan hefur þegar orðið fyrir og ég les í fréttum að það verði talsverð fækkun á starfsfólki: Hvernig á nákvæmlega að standa undir þessu ferli?