143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[16:00]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra, Gunnari Braga Sveinssyni, fyrir greinargóða skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál. Áhersluatriði ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum eru málefni norðurslóða, eins og oft hefur komið fram. Þar hafa verið stigin mörg mikilvæg skref t.d. með stofnun Norðurslóða-viðskiptaráðs Íslands sem hefur það meginmarkmið að byggja upp viðskiptasamstarf milli ríkja á svæðinu og búa þannig í haginn til að Íslendingar geti keppt um þau tækifæri sem þar myndast. Þá er líka horft til umhverfismála sem skipta okkur Íslendinga miklu. Mikilvægt er að varðveita lífríkið og halda uppi góðum umhverfisstöðlum við alla vinnu og uppbyggingu á norðurslóðum svo ekki verði raskað viðkvæmu vistkerfi og svo þær auðlindir sem Ísland byggir að mestu leyti hag sinn á verði ekki fyrir skaða. Veit ég að unnið er ötullega að þessum málum eins og fram kom í skýrslu hæstv. ráðherra.

Einnig er vert að tala um jafnréttismál í þessu sambandi, en nú á haustdögum verður haldin ráðstefna á Akureyri, með þátttöku Finnlands, Færeyja og Noregs, um hvernig auka megi hlut kvenna í málefnum norðurslóða. Fagna ég því sérstaklega að ýtt sé undir þátttöku kvenna í stefnumótunum og ákvarðanatöku á vettvangi norðurslóðamála. Sést þar hvar áherslur stjórnvalda liggja þar sem verkefnið er styrkt sérstaklega af þeim og norrænum samstarfssjóðum og sænska utanríkisráðuneytinu.

Að viðskiptatækifærum og umhverfis- og jafnréttismálum undanskildum er annað málefni sem rétt væri að ræða, þ.e. málefni frumbyggja á norðurslóðum, en í skýrslunni er fjallað um samtök frumbyggja og þátttöku þeirra í Norðurskautsráði. Starfsemi Norðurskautsráðs er viðamikil, hún hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum og þróast í takt við umhverfis- og samfélagsbreytingar á svæðinu. Fjölgun verkefna vinnu- og sérfræðingahópa ráðsins hefur verið samtökum frumbyggja viss áskorun, en smæð þeirra og takmarkað fjárhagslegt bolmagn hefur sett þátttöku þeirra skorður. Rætt hefur verið um leiðir til að styrkja hlut hefðbundinnar þekkingar frumbyggja í starfi ráðsins. Hefur Ísland lagt áherslu á réttindi frumbyggja og aðkomu þeirra að ákvörðunum um mál er snerta samfélög þeirra á norðurslóðum.

Á þeim grundvelli hefur utanríkisráðuneytið lagt samtökum frumbyggja lið m.a. með því að styðja fund þeirra sem haldinn var í Reykjavík í febrúar síðastliðnum. Tel ég það vel gert og nauðsynlegt að halda á lofti þeim stuðningi sem við veitum sem þjóð þótt við höfum enga frumbyggja hér á landi. Á fundinum ræddu fulltrúar frumbyggjasamtaka um þátttöku þeirra og áskorun í Norðurskautsráðinu, uppbyggingu og starf samtaka þeirra heima fyrir og hlut hefðbundinnar þekkingar í starfi ráðsins og vinnuhópum. Það var álit þátttakenda að í stað þess að halda upp á 20 ára afmæli framfara væri enn brýnt að benda á þörfina fyrir að hækka þau framlög sem varanlegir þátttakendur leggja í vinnu norðurslóðaráðsins.

Við erum háð virkni samvinnu ríkjanna, fyrirtækja og ekki síst fólksins sem þar býr, en með nánari samvinnu getum við best tryggt að framtíðarþróun svæðisins í efnahagslegu og samfélagslegu tilliti sé hagað á sem ábyrgastan hátt. Þau samfélög sem nú byggja svæðið verða að fá að njóta þess sem af auknum umsvifum leiðir en þó þannig að gætt sé að umhverfinu í leiðinni.

Eins og fram kemur í ræðu minni er það eitt af áherslumálum ríkisstjórnarinnar að vinna að málefnum norðurslóða til þess að nýta væntanleg tækifæri sem best. Það getur haft bæði samfélagslegan og efnahagslegan ávinning fyrir okkur öll.