143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[16:11]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í frumvarpinu er unnið að því mikilvæga markmiði að tryggja hreinleika hafsins svo að það verði ekki mengað með úrgangi frá skipum. Það sem vekur athygli mína er — þetta er reyndar mál sem ég þekki ekki vel — að þetta úrgangsgjald á að fara á öll skip að undanskildum fiskiskipum, skemmtibátum sem taka færri en tólf farþega, sem eru náttúrlega litlir bátar, herskipum, hjálparskipum í flota, skipum í ríkiseign eða ríkisrekstri sem nýtt eru í þágu hins opinbera.

Þetta eru ansi miklar undanþágur þegar við hugsum til þess að í íslenskum höfnum eru mörg fiskiskip og Landhelgisgæslan, sem mundi þá að öllum líkindum ekki falla undir þetta enda í ríkiseign og þjónar í þágu hins opinbera. Það eru þá skemmtiferðaskip og einhver flutningaskip, skip sem fara með farm, vörur og ýmislegt slíkt á milli landa, og eins eru strandsiglingar að aukast með vörur á Íslandi.

Ég spyr hvort hv. þingmaður viti eða telji eðlilegt að þessi viðamikli hluti af fiski- eða bátaflota, þeim skipaflota sem leggur að bryggju í íslenskum höfnum, sé undanskilinn þessu gjaldi (Forseti hringir.) eins og fram kemur í c-lið 4. gr. frumvarpsins.