143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:25]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta mál sé til góðs. Það hefur ekki reynt á þennan möguleika hingað til en það er eins og mig rámi samt í að talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hafi einhvern tíma ætlað sér að láta reyna á þetta. Ég man ekki í hvaða máli en það verður væntanlega skoðað í nefndinni á hverju strandaði þá. Það skiptir máli ef það var einhver fyrirstaða, ég næ bara ekki að rifja þetta upp hér og nú.

Það sem mér finnst mikilvægt er að þessi möguleiki sé til staðar. Ég er ekki viss um að hann verði notaður mjög mikið, en mér finnst mikilvægt að hafa þennan varnagla.

Svarið við spurningunni um hverjir eigi að geta komið að þessu segir sig sjálft, Neytendasamtökin eru samtök sem hafa starfað í 60 ár en svo eru mörg önnur samtök sem hafa þrengri hagsmuni. Spurningin er þá hvort ekki þurfi bara að meta hverju sinni hvort það er mál sem samtök hafa þekkingu á og mannafla og hafa jafnvel barist fyrir. Ef það væri mál sem sneri að einhverju leyti að bifreiðum væri Félag íslenskra bifreiðaeigenda kannski með mestu þekkinguna. Þetta gæti samt verið snúið vegna þess að ég get líka séð að samtök gætu togast á um mál. Það er kannski mikilvægt að koma í veg fyrir að það geti gerst.

Það er líka rétt sem hefur komið fram um að félagasamtök hafi ekki fjárhagslega burði til að reka svona mál. Þau eru yfirleitt frekar fjárvana þannig að það væri þá mikilvægt að ráðuneyti eða ríkið kæmi einhvern veginn að því og þá í málum þar sem menn telja ríka heildarhagsmuni fyrir neytendur.

Það er líka mikilvægt í þessu samhengi að það er talað um stjórnvöld og þá er Neytendastofa eftirlitsstofnunin sem gæti komið að málum.

Ég er spennt að fylgjast með hvaða meðferð þetta mál fær í nefndinni. Mér finnst þetta mjög gott mál og ég ítreka að það er ekkert víst að það þurfi að nýta þetta. Það væri líka fróðlegt að vita hversu oft þessi möguleiki hefur verið nýttur í öðrum löndum. Er verið að fara í málsóknir hægri, vinstri? Ég held að þetta sé meira hugsað sem varnagli, að ef allt um þrýtur sé þetta mögulegt. En nefndin mun eflaust rannsaka það.