143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson varpaði hér fram spurningum og tók reyndar upp mál sem ég kom aðeins inn á í mínu máli og snýr að sjálfstæðum eða óopinberum, frjálsum, hvað við viljum kalla það, félagasamtökum og þeim álitamálum sem koma upp í sambandi við þau.

Mér finnst að hv. þingmaður hefði getað gert betur og gert aðeins grein fyrir viðhorfum sínum. Væntanlega hefur hann sem fyrrverandi velferðarráðherra talsverða reynslu af einmitt þeim málum sem tengjast t.d. samningagerð ríkisins við svona aðila, félagasamtök og/eða sjálfseignarstofnanir sem stundum fara saman í þeim tilvikum þegar rekstur sem ríkið semur við eða kaupir þjónustu af er á vegum félagasamtaka en er kannski sem slíkur í sjálfseignarstofnun. Þá gera menn einhverjar kröfur til þeirra aðila.

Við köllum þetta þriðja geirann eða félagasamtök — okkur vantar almennilegar skilgreiningar. Það alveg hárrétt að það hefur lítið miðað í því efni að skýra einhvern veginn lagaumhverfið í kringum þetta.

Það læðist að mér sá grunur að að þessu leyti séum við býsna vanbúin að innleiða þetta með því að færa slíkt vald eða fela þessum aðilum það hlutverk sem á að gera með þessari aðferð við innleiðinguna, án þess að fyrir liggi einhverjar viðmiðanir og skilgreiningar á því hvaða skipulag þurfi að vera til staðar hjá þeim til að þeir séu þessa bærir. Er ekki ljóst að svona samtök þurfa að vera opin öllum sem gætu átt hagsmuna að gæta? Þau verða að hafa það í samþykktum sínum, þau verða að hafa lýðræðislegt stjórnskipulag o.s.frv. Hver var reynsla (Forseti hringir.) hv. þingmanns sem ráðherra af því að eiga í samskiptum og semja við aðila af þessu tagi?