143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[11:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði ekki annaðhvort eða hvað varðar Íbúðalánasjóð annars vegar og bankana hins vegar. Ég sagði bara annaðhvort og þetta annaðhvort hjá mér voru bankarnir og fjármálastofnanir sem fóru út í það að lána fólki 100% óháð því hvert fjármagnið ætti að renna. Það var það sem gerðist. En að gera því skóna að pólitísk ákvörðun hér á þinginu um að fara í 90% lán, sem voru örfá og auk þess með þaki upp á 15,4 milljónir, hafi verið þensluvaldurinn og sett íslenskt hagkerfi og efnahagskerfi og fjármálakerfi á hliðina er að mínu mati algerlega út í hött. Mér finnst það vera gagnrýnivert í skýrslunni á hvern hátt rannsakendur draga taum bankanna hvað þetta varðar þegar vísað er aftur til átaka þessara ára.

Varðandi Íbúðalánasjóðinn og leiðréttingar minni ég hv. þingmann á að við vorum samherjar á síðasta kjörtímabili þegar við vildum fara út í (Forseti hringir.) niðurfellingu og lækkun hjá því fólki sem fékk lán hjá Íbúðalánasjóði. Þarna erum við samherjar.