143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[12:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir það álit sem við ræðum hér. Ég vil segja í upphafi að ég held að þetta mál sé eitt af þeim málum sem hafi verið mjög mikilvægt að skoða núna eftir hrunið og hverju hafi verið ábótavant hafi mönnum orðið á einhver mistök. Það er gríðarlega mikilvægt að gera upp hlutina til framtíðar og þá getum við tekið á málum þannig að slíkt komi ekki upp aftur.

Hins vegar verð ég að segja strax í upphafi, sérstaklega eftir ræðu formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að mér finnst eins og það álit sem hér liggur fyrir sé ákveðinn áfellisdómur yfir vinnu rannsóknarnefndar. Það er gríðarleg gagnrýni á rannsóknarnefndina í álitinu á margan hátt, bæði hvað varðar efnistök og fleiri þætti. Ég kem inn á hluta af því á eftir. Þegar maður skoðar niðurlag álitsins vekur það okkur til umhugsunar um rannsóknarnefndirnar sjálfar og hvernig formið á að vera þegar við skipum rannsóknarnefndir. Rannsóknarnefnd sparisjóðanna hefur verið mikið til umræðu þar sem kostnaðurinn við það verkefni virðist vera að fara algerlega úr böndunum. Ég held að við verðum, og tek undir með meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að fara ofan í vinnureglur varðandi rannsóknarnefndirnar. Þetta nefndarálit sýnir það mjög sterkt að ekki er bara um að ræða fjárhagslega umgjörð að málum sé ábótavant, það á líka við þegar kemur að faglegri umgjörð. Þetta er ekki sagt til að reyna að koma í veg fyrir að skipaðar verði rannsóknarnefndir eða þingið kalli eftir því að kafað verði ofan í ákveðin mál. Þetta er sagt og er staðfest hér. Greinilegt er að sú umgjörð sem við erum að skapa í þeim málum í ljósi þessa álits kallar fram að ýmsum þáttum er ábótavant hvað það snertir.

Ég vil þó segja og vil taka undir það að ýmislegt í álitinu og í skýrslunni bendir til þess að Íbúðalánasjóður hefði mátt haga málum sínum betur. Ég vil sérstaklega taka undir það sem kemur fram í álitinu á bls. 25 og 26 og varðar meðal annars leigufélög sem voru stofnuð og fjármögnun þar. Þar voru þættir, verkferlar og fleira sem hefði mátt haga með öðrum hætti og það eru auðvitað hlutir sem verður að bæta og laga og eru í ákveðnum farvegi hvað það snertir. En svo er atriðum í skýrslunni og hlutum haldið fram sem meiri hlutinn rekur mjög vel að á ekki við nein rök að styðjast. Það er ekki á einum stað, það er ekki á tveimur stöðum. Og mig langar sérstaklega að nefna eitt dæmi sem varðar svokölluð 90% lán þar sem í skýrslunni er sagt, með leyfi virðulegs forseta:

„Þessi vegferð endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt.“

Rannsóknarnefndin gagnrýndi mjög hækkun hámarksveðhlutfalls lána og útfærslu. Í meirihlutaálitinu eru síðan raktar ákveðnar tölulegar staðreyndir hvað þetta snertir og þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Lán voru bundin við brunabótamat auk þess sem hámark lánsfjárhæðar var 15 millj. kr. árið 2005.“ — Sem takmarkar auðvitað verulega þann fjölda lána sem gátu fallið þarna undir. — „Nefndinni var kynnt að þessar reglur hafi takmarkað mjög þann fjölda lána sem náðu 90% viðmiðinu og til að mynda hafi á árinu 2005 einungis verið veitt um 40 lán á höfuðborgarsvæðinu sem náðu 90% viðmiðinu.“ — Ekki skortir yfirlýsingarnar hvað þetta snertir. — „Ný útlán sjóðsins til einstaklinga á þessum tíma voru um 2–3 milljarðar á mánuði …“ — Heildarútlán, ekki það sem féll undir 90% leið. Svo segir: — „Fyrstu mánuði sem bankar og sparisjóðir hófu að veita lánin“ — þessi 90% lán, þessi 40 hér á höfuðborgarsvæðinu — „námu ný útlán banka og sparisjóða um 30 milljörðum kr. á mánuði.“

Það var innan við 10% af heildarútlánum bankanna sjálfra. Þarna erum við komin að kjarnanum. Það var ekki Íbúðalánasjóður sem dró þetta af stað. Það var einfaldlega bankakerfið sjálft.

Mig langar aðeins að koma inn á eitt. Ég held að mjög mikilvægt sé að horfa til þessa álits og skýrslunnar því að við þurftum að velta fyrir okkur framtíð lánakerfisins, sem er auðvitað í sífelldri skoðun og sérstaklega nú um mundir, og það er tvennt sem við verðum að hafa í huga þar. Það er þetta félagslega gildi sem Íbúðalánasjóðurinn hefur haft og landsbyggðargildi, vegna þess að það var svo að Íbúðalánasjóðurinn var aðal — ég verð að segja að þegar góðærið var sem mest og hraðinn sem mestur á öllu í fjármálakerfinu þá var Íbúðalánasjóðurinn sá eini sem var tilbúinn til að lána oft og tíðum til hinna dreifðu byggða landsins, það er staðreynd. Ég verð að segja fyrir mitt leyti í ljósi sögunnar, og þetta álit styrkir mig í því og skýrslan, að ég treysti ekki stóru bönkunum á frjálsum markaði til að sinna þessu félagslega og landsbyggðarlega hlutverki. Ég treysti þeim ekki. Það er því gríðarlega mikilvægt að við horfum á skýrsluna og leitum leiða til að bæta það sem betur má fara, en horfum til þess að nota þetta ekki í þeim tilgangi að vinna gegn félagslegum og landsbyggðarlegum sjónarmiðum því að ekki er hægt að setja það út á einkamarkaðinn að sinna félagslegum og landsbyggðarlegum sjónarmiðum, því miður, eða sem betur fer kannski.

Þetta vil ég hafa lokaorð mín. Ég hvet alla sem eru í þeirri vinnu sem snýr að Íbúðalánasjóði að horfa á þessi félagslegu gildi, landsbyggðargildi, og láta ekki teyma sig út í umræðu sem við sáum fyrir hrun og erum að sjá aftur núna, að einkamarkaðurinn geti sinnt þessu öllu. Það er ekki þannig og það er ekki skoðun þess sem hér stendur. Ég vil hvetja þá sem eru í þeirri vinnu til að horfa til þess.

Ég þakka að lokum fyrir álitið og skýrsluna og vona að hún verði okkur veganesti inn í þá vinnu að þróa og móta Íbúðalánasjóð áfram þannig að hann geti sinnt sínu félagslega og landsbyggðarlega hlutverki.