143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

[14:24]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta stóra mál enn einu sinni upp á þingi. Þar höfum við hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar ítrekað leitað upplýsinga.

Eins og hér hefur komið fram átti ný áætlun um afnám hafta að koma í september. Í október sagði hæstv. fjármálaráðherra að enn væri unnið eftir þeirri áætlun sem hefði verið í gildi en uppfærsla hennar væri sameiginlegt verkefni þeirra sem kæmu að málum. Í janúar kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að unnið væri hörðum höndum að gerð áætlunar um hvernig ætti að komast á næsta stað í ferlinu. Í febrúar sagði hæstv. forsætisráðherra að afnámsáætlun yrði ekki birt, henni yrði haldið leynilegri. Um síðustu afnámsáætlun, sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði okkur núna að ríkisstjórnin ynni enn samkvæmt, áætlunin frá 2011 í janúar, sagði hæstv. forsætisráðherra að hún væri raunar byggð, og ég vitna í hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta, „á algjörlega röngum forsendum.“(Gripið fram í.)

Það er því ekki nema von þegar maður rennir yfir þær ræður sem hafa verið fluttar um þessi mál, sem eru orðnar ófáar á þessu þingi, að maður fari virkilega að velta fyrir sér hvert nákvæmlega hæstv. ríkisstjórn stefni. Hér átti að liggja fyrir áætlun sem átti að byggjast m.a. á hugmyndum hæstv. forsætisráðherra. Enn er hins vegar unnið eftir áætlun frá 2011 sem samkvæmt þeim sjálfum byggir á algjörlega röngum forsendum. Ég segi ekki meir.

Ástæða þess að við erum sífellt að spyrja eftir þessu er að sá þverpólitíski samráðshópur sem hefur verið starfandi hefur ekki fengið mikið að vita, eftir því sem við fregnum. Ég vil bara vekja athygli á því að sá þverpólitíski hópur sem starfaði á síðasta kjörtímabili boðaði til að mynda formenn stjórnmálaflokkanna til fundar við sig og hann gerði meðal annars tillögur um aðgerðir og leiðir sem hægt væri að fara. En hlutverk þessa nýja þverpólitíska hóps er algjörlega óljóst. Ég verð að segja, bara miðað við þær upplýsingar sem ég skautaði yfir við lestur á hinni merku heimasíðu althingi.is, gefa til kynna (Forseti hringir.) að við vitum ekki alveg hvert við erum að fara í þessu máli.