143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[16:05]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Þegar stórir atburðir verða í þjóðfélaginu er mjög nauðsynlegt að reyna að komast að því hvað olli tjóni á sínum tíma ef tjón hefur orðið og hvort hægt er að læra af mistökum hafi þau verið gerð. Það er svo að þegar Alþingi biður um skýrslur til að varpa ljósi á atburði liðins tíma í einmitt því skyni og til að vera vegvísir fram á veginn, svo að við göngum ekki sömu götuna tvisvar, er mjög mikilvægt að þær skýrslur sem fram koma séu þannig úr garði gerðar að þær uppfylli þau skilyrði að geta orðið leiðarvísir inn í framtíðina.

Það segir á bls. 47 í ágætu meirihlutaáliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem ber að þakka fyrir hennar starf, með leyfi forseta:

„… verður að gera ríkar kröfur til rannsóknarnefnda og efnistaka þeirra við skýrslugerð. Mikilvægt er að tryggja að hófs sé gætt í orðalagi, staðhæfingar séu réttar og mannorð manna sé ekki að ósekju skaðað enda hafa þeir ekki tök á að fara í meiðyrðamál í slíkum tilvikum líkt og þeir geta til að mynda gert ef um blaðaskrif væri að ræða.“

Því miður uppfyllir skýrslan sem álitið er byggt á ekki þessi skilyrði. Það er einna líkast því sem skýrsluhöfundar hafi tekið erindisbréfi sínu þannig að það væri hlutverk þeirra að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína. Í skýrslunni er mjög hátt reitt til höggs mjög víða, en þau högg eru flest vindhögg. Það er svo mikið af rangfærslum og jafnvel ósannindum í skýrslunni að það hálfa væri nóg. Kannski er versta dæmið í skýrslunni um slíkt flökkusaga sem rataði inn í hana á síðustu metrunum, höfð eftir mjög óáreiðanlegum heimildum, sem vegur að mannorði nýlátins manns. Neðar verður varla komist.

Það kom fram í umfjöllun hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og ég endurtek að umfjöllunin var mjög gaumgæfileg og vönduð, að þar komu allmargir aðilar fyrir, aðilar sem voru bornir býsna þungum sökum í skýrslunni, einstaklingar, stofnanir og erlendir sérfræðingar. Allir aðilarnir virtust eiga eitt sameiginlegt; nefndin hafði aldrei haft samband við þá, nefndin hafði aldrei kallað eftir áliti þeirra, nefndin hafði aldrei veitt þeim andmælarétt við neinu af því sem fram kom í skýrslunni. Þetta rýrir skýrsluna gríðarlega.

Ég vil nefna til sögunnar nafngreinda fyrrverandi starfsmenn Íbúðalánasjóðs, núverandi og fyrrverandi ríkisendurskoðanda og Ríkisendurskoðun sem stofnun, erlenda aðilar, svo sem Capto og Deutsche Bank. Það kemur fram á bls. 23 þegar talað er um fund með fyrrum forstjóra Capto, sem var ráðgjafi Íbúðalánasjóðs, að þeir staðfestu það jafnframt að rannsóknarnefndin hefði ekki haft samband við þá né aðra til þess að óska eftir því að fulltrúar fyrirtækisins mættu til skýrslugerðar.

Þessi skýrsla var ekki ódýr. Hún kostaði 250 millj. kr. af skattfé. Fyrir 250 milljónir kr. má reka meðalstóra ríkisstofnun á Íslandi í eitt ár, t.d. Skógrækt ríkisins, svo ég nefni dæmi. Þess vegna hljóta menn að gera þá kröfu til skýrslna sem gerðar eru um jafn alvarlega hluti og hérna eru bornir fram að þær séu sæmilega úr garði gerðar.

Það er fullyrðing í skýrslunni um að tjón ríkisins af Íbúðalánasjóði gæti orðið allt að 270 milljarðar kr. Ég spurði ítrekað nokkra gesti um það á sínum tíma þegar ég sat sem varamaður í nefndinni hvað þyrfti að koma til til þess að annað eins tap yrði af Íbúðalánasjóði. Svarið var: Það þyrfti annað eins hrun og varð hér 2008. Annað eins hrun. Það er talað um það í skýrslunni sem nefndarálitið byggist á að það sé alls ekki svo fjarlægt að þessir 270 milljarðar tapist.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr því að Íbúðalánasjóður hefur tapað 63 milljörðum og það er búið að bókfæra meira í varúðarsjóð, ég geri ekki lítið úr því, en ef við horfum á tap fjármálakerfisins á Íslandi í heild er þetta tap í því samhengi ekki svo stórt.

Engu að síður þurfum við náttúrlega að hlusta á það sem þó kemur rétt og vel fram í skýrslunni og það er eitt sem kemur loksins fram, og er loksins kvatt og hægt að leggja til hliðar, og það er þjóðsagan um að 90% húsnæðislán, sem voru eitt af kosningamálum framsóknarmanna árið 2005, hafi komið öllu á hliðina. Það segir í skýrslunni að 40 lán hafi ratað inn á höfuðborgarsvæðið. Hámarksupphæð var 15,4 milljónir og það voru því 600 milljónir lánaðar á höfuðborgarsvæðinu á þessum árum. 600 milljónir. Íbúðalán í landinu núna eru 1.700 milljarðar. Þótt sagt sé að lítil þúfa velti þungu hlassi er hægt að leggja þessa þjóðsögu til hliðar, hægt að kveðja hana. Það er eitt af því sem er gott í skýrslunni.

Það er líka rétt að halda því til haga að það kemur fram í skýrslunni að árið 2007 var hagnaður af rekstri Íbúðalánasjóðs. Hann átti höfuðstól sem hann reyndar tapaði þegar hrunið skall á.

Herra forseti. Eins og allir vita er þetta önnur skýrslan sem Alþingi hefur beðið um á undanförnum árum og sú þriðja er væntanleg. Það sem læra má af beiðnunum eftir þeim skýrslum er að það er næsta víst að Alþingi hefur ekki varað sig á því að afmarka störf rannsóknarnefndanna þannig að kostnaður við þær skýrslugjafir sem beðið var um færi ekki úr böndum. Það er líka klárt að Alþingi hefur ekki varað sig á því að fyrir liggi kostnaðaráætlun nefndastarfsins áður en lagt er upp þannig að menn geti velt því fyrir sér í fullri alvöru ef þeir standa frammi fyrir mjög dýrri skýrslugerð hvort hún sé þess virði fyrir þann lærdóm sem af henni má draga.

Sannast sagna finnst mér skýrslan sem þetta álit varðar ekki 250 millj. kr. virði. Persónulega hefði ég ekki viljað panta verk fyrir brot af þeirri upphæð og fá það svona um búið. Ef ég hefði fengið svona verk eða verk svona um búið sem ég hefði borgað fyrir mundi ég krefjast endurgreiðslu þeirra sem skiluðu verkinu. Ég veit að það er ekki á færi Alþingis að gera það, en ef svo væri ætti ég eina ósk og það væri að þeir sem sömdu skýrsluna endurgreiddu þann kostnað sem þeir fengu greiddan frá ríkinu fyrir þessa hugsmíð, svo skelfileg er hún, herra forseti.