143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um vinnubrögðin og hvert skuli haldið. Varðandi reikninginn sem sendur var er deilumál hvort sá reikningur sem sendur var vegna Íbúðalánasjóðs sé runninn undan rifjum þeirra sem fóru þar með stjórn eða hvort skýringarnar séu aðrar. Þar eru misjöfn sjónarmið uppi.

Ég minni á að þegar við erum að tala um einstaklinga og hvað gerðist í sumar þegar rannsóknarskýrslan kom út. Ég er með blaðaúrklippur frá þessum tíma, m.a.: „Milljarðatap vegna vanhæfis“.

„270 milljarðar tapast vegna vanhæfis“ er á öðrum stað. Ég er með fleiri svona fyrirsagnir. Þetta voru þær sakir sem á stjórnendurna voru bornar, að vegna vanhæfis og aulagangs hefðu þeir valdið íslenskum almenningi þessum búsifjum.

Þetta er ranglátt og þess vegna snýst málið um það í og með að menn séu látnir njóta sannmælis. Út á það á starf okkar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins að ganga þegar við fáum skýrslur af þessu tagi til umfjöllunar.