143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál.

[15:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að húsnæðisverð og í kjölfarið leiguverð er hátt á Íslandi er að það eru mjög miklar húsnæðisskuldir í kerfinu. Eins og staðan er núna, ef við byrjum bara á Íbúðalánasjóði, er tvennt sem mig langar að nefna, annars vegar hagsmunaárekstra af því að ríkið reki eða eigi Íbúðalánasjóð, og Landsbankann líka í kjölfarið, og hins vegar að Íbúðalánasjóður — þetta er tengt — er núna að biðja um frávísun á máli sem Hagsmunasamtök heimilanna höfða um að verðtrygging neytendalána, sem þýðir húsnæðislán frá 2001, hafi verið ólöglega útfærð. Í staðinn fyrir að klára þetta mál, fá á hreint hvort verðtryggingin á neytendalán hafi verið ólöglega útfærð, biður Íbúðalánasjóður um að þessu máli verði vísað frá.

Dómari sem er kominn tvo mánuði inn í þetta ferli allt saman segir sig frá málinu af því að hann er með, viti menn, lán hjá Íbúðalánasjóði. Hann hefði kannski átt að vita það aðeins fyrr að hann væri aðili sem gæti ekki fylgt þessu máli eftir í dómsal ef það væri hagsmunaárekstur.

Þá komum við aftur að hagsmunaárekstrunum. Við þurfum bara að spyrja okkur: Er þetta gott fyrirkomulag? Jú, það eru einhverjir kostir, menn sjá ýmsa kosti við það að Íbúðalánasjóður sé til, en við þurfum að horfa líka á gallana. Gallarnir eru meðal annars þeir að við erum með húsnæðismálaráðherra sem á að hugsa um hagsmuni meðal annars Íbúðalánasjóðs og svo erum við með innanríkisráðherra sem á að tryggja réttarstöðu lántakenda og hefur ýmsar heimildir til þess að fara í mál og gera alls konar hluti. Þeim heimildum hefur ekki verið beitt nægilega. Meira að segja þegar einkafélagasamtök úti í bæ, Hagsmunasamtök heimilanna, fara út í að skoða (Forseti hringir.) hvort það sé lögmæt útfærsla á verðtryggðu neytendaláni hjá Íbúðalánasjóði (Forseti hringir.) biður Íbúðalánasjóður um að því máli verði vísað frá.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er þetta í lagi? Og þarf ekki að skoða þetta eitthvað?