143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

atvinnumál.

387. mál
[17:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Mér finnst hæstv. forsætisráðherra fullbrattur að slá eign sinni og ríkisstjórnar sinnar á þó það sem jákvætt hefur verið að gerast í efnahagsmálum á Íslandi undanfarin ár. Veruleikinn er auðvitað sá að hæstv. ríkisstjórn fékk í arf mun kraftmeiri bata í hagkerfinu en menn höfðu áttað sig á, samanber ágæta útkomu á árinu 2013 í heild (Gripið fram í.)sem og að meðaltali 2,5% hagvöxt síðastliðin þrjú ár; 2011, 2012 og 2013 er að meðaltali rúmlega 2,5% hagvöxtur á Íslandi. Það byrjaði ekki í maímánuði síðastliðnum, hæstv. forsætisráðherra.

Í öðru lagi fagna ég því að vinna að heildstæðri nýsköpunar- og atvinnustefnu skuli vera í fullum gangi, það eru góðar fréttir. Mér finnst gott að heyra að von sé á því að eitthvað fari að birtast í þeim efnum. Í þriðja lagi þakka ég hæstv. forsætisráðherra fyrir ágæta upptalningu. Þetta var ágætisupptalning og minnir okkur á að það er til vísinda- og tækniráð og margir „instansar“. Ég hugsa að þeir hafi að vísu verið svolítið súrir með þann mikla niðurskurð á fjárveitingum til samkeppnissjóða sem þeir fengu í andlitið frá nýrri ríkisstjórn. Mér fannst ég ekki alveg fá skýr svör við því hvers vegna atvinnumálin verðskulda ekki ráðherranefnd úr því að þær eru á annað borð þetta margar hjá hæstv. ríkisstjórn, ein sex, sjö stykki. En gott og vel. Að sjálfsögðu er manni létt við að fá það staðfest að ríkisstjórnin hefur ekki gleymt atvinnumálunum þó að þetta takist svona til eða hún hafi valið sér það verklag að hafa ekki samræmingarvettvang innan Stjórnarráðsins eða ríkisstjórnanna sem slíkra um atvinnumál. Ég mundi í allri vinsemd mæla með því við hæstv. forsætisráðherra að hann velti því fyrir sér. Eins ágætt og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið er og tvímenningarnir þar, held ég að það sé afturför að sumu leyti að gera ekki atvinnumálunum (Forseti hringir.) hátt undir höfði með því að ein af nokkrum ráðherranefndum hæstv. ríkisstjórnar fjalli um atvinnumál.