143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

Dettifossvegur.

396. mál
[18:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég tel að þessi vegaframkvæmd sé lykilvegaframkvæmd á norðausturhorninu. Sá bútasaumur sem hefur verið á því að klára þennan veg er okkur öllum hreinlega til vansa. Ég tek auðvitað góðan vilja hæstv. ráðherra alvarlega. Ég held að við munum öll leggja okkur fram um að reyna að hjálpa henni að standa við þau skýlausu orð sem hún gaf hérna áðan.

Á norðausturhorninu höfum við séð ferðaþjónustu fleygja fram og raunar alveg verið með ólíkindum hversu mjög frumkvöðlar þar víðs vegar, á Húsavík, Raufarhöfn, Akureyri og um allt kjördæmið, hafa látið að sér kveða. Þar er núna mesta hvalaskoðun sem starfrækt er í heiminum og út frá Húsavík eru margvíslegar ferðir í boði og vegurinn sem við höfum beðið eftir svo lengi er einn af þeim sem er algerlega nauðsynlegur til að búa til það perluband sem er ferðalagið á milli þeirra glæsilegu náttúrusvæða sem þar er að finna.