143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

um fundarstjórn.

[19:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þykir nú innlegg hæstv. félagsmálaráðherra ekki vera mjög hjálplegt í umræðu hér á þessu kvöldi. Það liggur fyrir að formenn stjórnarflokkanna óskuðu eftir samvinnu við stjórnarandstöðuna um meðferð mála. Við buðum fram úrlausn í því efni sem formenn stjórnarflokkanna þáðu, þeir þáðu það að koma málinu á dagskrá og ræða það. Við lögðum á það áherslu að við mundum ekki standa í vegi málsins og að hægt væri að koma því til nefndar eftir eðlilega umræðu hér. En til þess þurftum við auðvitað að fá að kynna okkur málið fyrir fram, það var eðlilegt að við fengjum tækifæri til að lesa og fá sérfræðinga í heimsókn til þess að fara yfir málið. Það hefur okkur nú gefist færi á að gera og við erum tilbúin til umræðunnar á morgun.

Ég verð að segja alveg eins og er að ef ríkisstjórnin ræður ekki við að ræða sitt stærsta mál er það annaðhvort ótrúlegur skortur á hugrekki og ótti um að engin innstæða sé fyrir málatilbúnaðinum eða skipuleg aðför að þingstörfunum hér og tilraun til að hleypa þeim upp og (Forseti hringir.) koma í veg fyrir að hægt sé að vinna úr málum á (Forseti hringir.) Alþingi. Er verið að stefna okkur inn í sumarþing nauðugum viljugum? (Forseti hringir.) Er það upplegg ríkisstjórnarinnar?