143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[17:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel það veika röksemdafærslu að telja fyrst og fremst upp fyrri inngrip vegna þess að sum þeirra eru svo langt frá því að vera sambærileg að umfangi við það sem hér á við eins og sjómannaverkfallið 2001, eiginlega allsherjarverkfall á íslenska fiskiskipaflotanum sem búið var að standa í tvo mánuði þegar inn í það er gripið með lögum. Ætli flestir Íslendingar séu ekki með þá tilfinningu að það sé dálítill þjóðarvoði og að þá sé veruleg þjóðhagsleg vá fyrir dyrum ef fiskiskipaflotinn okkar stoppast mánuðum saman? Það er stórt og að telja það upp sem rök fyrir inngripi hér er ekki endilega góð lögfræði.

Ég er einfaldlega að segja að ég sakna þess að það sé þá ekki bara rækilega reifað í þessu tilviki sem við stöndum frammi fyrir núna að svo sé komið og að þvílíkar aðstæður séu fyrir hendi að hægt sé að ýta til hliðar rækilega stjórnarskrárvörðum rétti manna til að stofna stéttarfélög og standa í lögmætum aðgerðum til að þrýsta á um kaup sitt og kjör, sem er auðvitað mikið alvörumál.

Dómur á árinu 2002 veitir að sögn kunnugra mjög góða leiðsögn um það núna hvað þurfi til til að hægt sé að réttlæta lagaíhlutun, enda hefur blessunarlega ekki verið mikið um slíkt síðan þá.

Ég er einfaldlega að leyfa mér að lýsa vonbrigðum með að ég hefði talið betra ef greinargerðin hefði verið mun rækilegri og vandaðri og meira lagt í hana. Við þekkjum auðvitað afstöðu bæjarstjórnar Vestmannaeyja og erum öll búin að fá það sent held ég, þingmenn, þannig að það þurfti svo sem ekki að endurprenta það endilega hér, enda eru það ekki hin lögformlegu, stjórnskipulegu rök sem ég held að hljóti að þurfi að liggja fyrir til að það sé sæmilega hafið yfir vafa að inngripið hér sé réttlætanlegt.