143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:10]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp ríkisstjórnarinnar um séreignarsparnað og skattfrjálsa ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Frumvarpið er mikilvægur þáttur í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um lækkun húsnæðislána heimilanna. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, á lögum um tekjuskatt og lögum um húsnæðismál.

Frumvarpið heimilar fjölskyldu að ráðstafa séreignarsparnaði skattfrjálst inn á veðlán vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Einnig heimilar frumvarpið þeim sem ekki eiga húsnæði að ráðstafa séreignarsparnaði skattfrjálst til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota síðar.

Heimili munu geta sótt um þátttöku í þessum úrræðum á sérstöku vefsvæði ríkisskattstjóra. Úrræðin takmarkast við það iðgjald sem fellur til á þriggja ára tímabili frá 1. júlí 2014 til 30. júní 2017. Önnur skilyrði eru þau að hámarksiðgjald er 4% frá launþega og 2% frá vinnuveitanda. Hámarksfjárhæð á ári er 500 þúsund eða 1,5 millj. kr. á þremur árum. Einnig er skilyrði að iðgjöld séu greidd reglulega og framlag launþega sé ekki lægra en launagreiðanda.

Séreignarsparnaður til kaupa á íbúðarhúsnæði verður laus til ráðstöfunar til 30. júní 2019, þ.e. í tvö ár eftir að söfnun með skattfrjálsum hætti lýkur eða til viðbótar. Í báðum úrræðunum felst skattfrjáls úttekt séreignarsparnaðar og það felur í sér verulegan hvata til húsnæðissparnaðar eða greiðslu inn á íbúðalán og þar með lækkun skulda heimilanna. Í skýrslu sérfræðingahópsins um leiðréttinguna var áætlað að skattleysi séreignarlífeyrissparnaðar gæti lækkað höfuðstól húsnæðislána um 70 milljarða. Nokkur óvissa er þó um upphæðina og áhrif á ríkissjóðs enda á eftir að koma í ljós hver þátttakan verður. Starfshópurinn sem vann að frumvarpinu setti fram sviðsmyndir út frá mismunandi forsendum um þátttöku en ljóst er að áhrif frumvarpsins á skuldastöðu heimilanna verður umtalsvert til lækkunar, líklega 4–5% lækkun.

Þegar á heildina er litið gætu úrræðin nýst 50–80 þúsund fjölskyldum sem greiða mundu 60–80 milljarða aukalega inn á húsnæðisskuldir sínar. Ljóst er að úrræðin munu hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga þó að það gerist ekki strax og áhrifin munu dreifast á allmörg ár í framtíðinni. Áhrifin koma fram í því að hluti séreignarlífeyris er tekinn út skattfrjáls í dag og myndast því ekki skattstofn í framtíðinni. Ríkissjóður mun því fá minni tekjuskatta og sveitarfélög minna útsvar, sem því nemur, í framtíðinni. Á móti kemur að útgjöld ríkisins til vaxtabóta minnka strax og tekjur af tryggingagjaldi verða hærri. Auknar ráðstöfunartekjur heimila gætu leitt til aukinnar eftirspurnar og umsvifa yfir nokkuð langt tímabil hjá ríki og sveitarfélögum og þar með skapað tekjur á móti tapinu. Í skýringum með frumvarpinu er áætlað að ríkið gæti í framtíðinni orðið af tekjum sem nema 18–25 milljörðum en sveitarfélögin af tekjum sem nema 9–12 milljörðum. Á móti koma fyrrgreind áhrif af auknum umsvifum, veltusköttum og þjónustugjöldum þannig að nettótapið ætti að vera umtalsvert lægra.

Það verður að teljast jákvætt að þessi úrræði eru almenn og geta nýst mjög stórum hluta heimila. Þau geta nýst þeim sem hafa tekið lán nýlega, þeim sem skulda óverðtryggð lán og einnig þeim sem ekki eiga íbúðarhúsnæði en hyggjast afla þess á næstu árum. Hér er um að ræða jákvæðan hvata til sparnaðar og lækkunar lána heimilanna sem veldur hlutfallslega litlum vergum útgjöldum fyrir ríkissjóð og sveitarfélög þegar allt er talið.

Virðulegi forseti. Vík ég nú að tilefni þessa frumvarps sem er erfið skuldastaða heimilanna í landinu og nauðsyn á að bæta þar úr. Þótt staðan hafi vissulega batnað frá hruni þá er skuldsetning íslenskra heimila enn í dag með því mesta sem þekkist. Skuldir heimilanna voru 102% af landsframleiðslu í lok síðasta árs, samanborið við 46% af landsframleiðslu árið 1990. Þessi vaxandi skuldsetning heimila er ekki einsdæmi. Árið 1964 voru skuldir breskra heimila aðeins 15% af landsframleiðslu en árið 2009 skulduðu þau 95% af landsframleiðslu og í evrulandinu Hollandi eru skuldir heimila jafnvel enn hærri eða 110% af vergri landsframleiðslu.

Í Hollandi hefur fasteignaverð lækkað um 20% frá árinu 2008 og heimili þar í landi hafa sannarlega mátt herða sultarólina til að geta staðið í skilum með sínar afborganir. Þessi mikla skuldsetning heimila í þróuðum ríkjum er vaxandi áhyggjuefni því að hún er talin geta hægt mjög á því að hagkerfið komist aftur á skrið. Það bitnar ekki bara á heimilunum heldur líka lánveitendum, skattgreiðendum og raunar öllum í hagkerfinu. Það er því öllum í hag að létt verði á skuldabyrði heimila.

Í ýmsum löndum er sú leið farin að láta verðbólguna draga úr skuldabyrði heimila. Stjórnvöld hafa víða lækkað stýrivexti og jafnvel notað magnbundna íhlutun til að auka peningamagn í umferð og þar með hugsanlega verðbólgu. Verðbólgan er þá almenn aðgerð til lækkunar raunskulda á því myntsvæði sem um ræðir. Sú leið er ekki fær því að hér eru skuldir heimila að mestu leyti verðtryggðar. Við þurfum því að beita öðrum almennum úrræðum til skuldalækkunar heimila og skattalegur hvati með séreignarsparnaði er einmitt slíkt úrræði.

Fyrri ríkisstjórn stóð fyrir ýmsum sértækum úrræðum vegna skuldavanda en þau beindust að afmörkuðum hópum. Auk þess voru skuldir heimila sem tekið höfðu ólögleg gengistryggð lán lækkaðar fyrir dómstólum. Heimilum sem áttu sparnað í bönkum eða sjóðum var komið til bjargar á kostnað ríkisins. Eftir sátu fjölmörg heimili með stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán, heimili sem stóðu ávallt í skilum með afborganir lána og skatta og nú loks er komið að þeim stóra hópi að fá leiðréttingu.

Þetta frumvarp er hluti af þeirri leiðréttingu sem boðuð var í nóvember. Ég vil lýsa ánægju með það hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á þessu verkefni og færi mínar bestu þakkir þeim sem lögðu hönd á plóg. Skuldsetning íslenskra heimila sem hlutfall af landsframleiðslu er mjög há á alþjóðlegan mælikvarða og frumvarpið er mikilvægur liður í því að vinna bót á þeim vanda. Það mun færa heimilum aukinn hvata til að lækka íbúðaskuldir. Fleiri munu vilja spara fyrir húsnæði. Með frumvarpinu er því unnið gegn hættu á því að of há skuldsetning heimila hér á landi verði að viðvarandi efnahagsvandamáli. Ég bind vonir við að hv. þingmenn minni hlutans, sem hafa hér í mörgum þingræðum ítrekað vilja sinn til að greiða götu málsins, standi við þau fyrirheit.