143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur fram í máli hv. þingmanns að hún hefur töluvert af persónulegum skoðunum. Það kom til dæmis fram í hennar ágætu ræðu áðan að hún væri ánægð með þá aðgerð sem felst í frumvarpinu af því hún teldi að það hentaði vel millitekjuhópum. Ég er alveg sammála henni að hún fellur best að þeim. Hún sagði líka að það væri hennar persónulega skoðun að það væri sárt að sjá að lágtekjuhóparnir kæmu ekki nægilega vel út úr því. Þá mætti kannski velta því fyrir sér hvernig hv. þingmaður ætlar að reyna að koma fram þeirri persónulegu skoðun sinni gagnvart skoðun Framsóknarflokks og ríkisstjórnarinnar. Hún ætti að hafa möguleika til þess umfram aðra því að hún hefur upplýst það sem ég vissi ekki áður, kannski af því ég fylgist ekki nægilega mikið með högum stjórnarheimilisins, að hún eigi sæti í verkefnisstjórn. Hún getur því látið til sín taka þar.

Það kom líka fram að það væri hennar persónulega skoðun að ákaflega mikilvægt væri að verðtryggingin yrði líka afnumin. Er ekki rétt munað hjá mér að hún hefur sagt að forsenda þess að aðgerðirnar gangi upp sé að verðtryggingin verði afnumin? Það er ekki bara persónuleg skoðun hennar, hún hefur vísað í útreikninga sem m.a. hafa komið fram í því minnihlutaáliti sem hún vísaði til.

Spurning mín, sem ég ætla að ítreka á skýrari hátt gagnvart hv. þingmanni, er þessi:

Ef verðtryggingin verður ekki afnumin, eða dregið úr henni á þann hátt sem hv. þingmaður sagði áðan, þýðir það að það sem menn eru að reyna með þessum tveimur frumvörpum nær ekki hinum upprunalegu markmiðum sínum? Er óhjákvæmilegt að verðtryggingin verði afnumin til þess að þetta virki allt saman, að hennar mati?