143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég gagnrýni þá ráðstöfun í sjálfu sér ekki, enda eru þetta nú einu sinni peningar sem fólkið á sjálft og eitthvert val á það kannski að hafa um hvernig það notar þá. Það var skoðað og heldur betur skoðað áður en við opnuðum fyrir útgreiðslu séreignarsparnaðarins, uppsafnaðs séreignarsparnaðar, hvort ætti einmitt að vera með einhver skilyrði um að hann yrði greiddur inn á lánin, en var algjörlega horfið frá því að vel athuguðu máli, m.a. vegna þess að þá var enn mikil óvissa um hvernig ýmsum lánum reiddi af. Það voru skuldaaðgerðir í gangi sem áttu eftir að ganga í gegn og til framkvæmda. Þetta er nú einu sinni lögvarinn sparnaður fólks og kemur ekki til skoðunar í gjaldþrotaskiptum o.s.frv., þannig að menn verða að hafa góð rök til þess að skilyrða hann. Síðan sýndu greiningar, eins og greining Seðlabankans á árinu 2009 og inn á árið 2010, að vandi fólksins þá var bráðavandi. Það voru yfirdrættir, það voru vanskil, það voru matarreikningarnir og augljóst að best var að treysta fólki sjálfu fyrir því hvernig það nýtti sér þá peninga ef það sjálft kysi að grípa til einhvers hluta af séreignarsparnaði sínum í því skyni.

Varðandi hvatana sem hæstv. fjármálaráðherra leggur mikla áherslu á, bæði fyrr í dag og nú, að það eigi að ýta undir og gefa fólki með lægri tekjur sérstakan hvata til að fara inn í séreignarsparnað. Já, út af fyrir sig gerir það það, en vandinn er sá að afkoma heimilanna býður iðulega ekkert upp á það. Það er bara þannig að fólk þarf þessi 56%, 62% eða hvað það nú er sem það fær þó í vasann mánaðarlega þegar það fær þessi 4% útborguð í staðinn fyrir að fara með þau inn í ráðstöfun af þessu tagi.

Svo vil ég að síðustu segja um skuldir íslenskra heimila sem margir hafa nefnt að séu miklar. Já, það er rétt, 100% af vergri landsframleiðslu, rúm. En eignir íslenskra heimila eru líka býsna miklar. Við skulum ekki gleyma því að (Forseti hringir.) nettóstaðan á eignarreikningi íslenskra heimila er ekki svo slæm. Merkilegt nokk, þrátt fyrir hrun og allt, m.a. vegna þess að fólk á heilmikið í skuldlitlu húsnæði og upp undir (Forseti hringir.) fjórðungur eða um fjórðungur heimilanna í landinu skuldar ekki (Forseti hringir.) krónu í húsnæði sínu.