143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:02]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í aðdraganda kosninga og lengi vel hefur verið rætt um almennar aðgerðir til lækkunar skulda heimilanna. Í þeirri aðgerð sem hér er til umræðu eru undanskilin námslán, það er afmarkað tiltekið tímabil, ekki er tekið tillit til lögmætra gengistryggðra lána, ekki er tekið tillit til óverðtryggðra lána — jú, það kann að vera að einhverju leyti þar sem eru tvö veð en alls ekki þar sem um er að ræða leiguhúsnæði.

Því langar mig til þess að spyrja hv. þm. Frosta Sigurjónsson hvort þetta sé almenn aðgerð eða hvort þetta sé sértæk aðgerð. Eftir þessa upptalningu mína, og hún kann að vera lengri, sýnist mér að þetta sé mjög sértæk aðgerð. Hún höfðar að vísu til nokkurs fjölda en sértæk er hún, almenn er hún ekki. Er það réttur skilningur hjá mér?