143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni góða og efnismikla ræðu og taka undir með honum að það er auðvitað hálfhjákátlegt að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra tala um það alla daga að agi í ríkisrekstri sé fullnægjandi til að tryggja stöðugleika í íslensku efnahagslífi og sjá hann svo leggja fram frumvarp af þessum toga sem mun auka á hagsveifluna og valda vanda í hagstjórninni, það liggur fyrir.

Vegna þess að hv. þingmaður rakti ágætlega ýmis dæmi um verkefni og atriði sem ég náði ekki að nefna í ræðu minni sökum hins skamma tíma sem við höfum, langar mig að spyrja hv. þingmann um fólkið sem ekki fær, fólkið með löglegu gengislánin sem búið er að umbreyta í krafti gengislánalaganna yfir í íslensk verðtryggð lán. Það situr uppi með sína verðtryggðu stökkbreytingu einhverra hluta vegna, ég hef aldrei fengið að vita af hverju. Svo er það hin alræmda 3. gr. frumvarpsins sem undanskilur sérstaklega húsnæðissamvinnufélög þar sem ríkisstjórnin eiginlega (Forseti hringir.) leggur lykkju á leið sína til að sparka í þá sem að leigja fólki á lægstu laununum með verðtryggðri leigu og gerir þeim ókleift að lækka leiguna.