143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hægt að taka undir með hv. þingmanni að þetta er auðvitað ekki almenn aðgerð því að allir eru undanskildir sem raunverulega eru í vanda, virðist vera. Þegar ég horfi á þessar undanþágur blasir við að það er tilviljanakennt hvaða hópar eru flokkaðir saman sem eru síðan sérstaklega undanþegnir lögunum. Þetta er fólk sem á það sammerkt að vera að borga af verðtryggðum húsnæðisskuldum, hvort sem það er fólkið með gildu gengistryggðu lánin eða fólkið samkvæmt 3. gr. í húsnæðissamvinnufélögunum.

Ef peningarnir, af því að hv. þingmaður fór ágætlega yfir það áðan, sem er verið að afla með bankaskattinum, og við í Samfylkingunni studdum álagningu bankaskattsins, eru ekki nýttir núna til að leysa vandann eins og hann raunverulega liggur fyrir, með hvaða fé á þá að leysa vandann sem eftir stendur? Getur verið að afmörkunin á þeim sem fá að njóta sé gerð til þess að reyna að koma í veg fyrir að þetta sé aðgerð sem miði að því að leysa raunverulegan húsnæðisvanda en (Forseti hringir.) sé í staðinn einhvers konar dulbúin skattalækkunaraðgerð til þeirra sem mest hafa milli handanna?