143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:46]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir andsvarið.

Það er rétt að fram kom í ræðu minni að ég hef áhyggjur af þeim hópi sem keypti húsnæði á árunum 2004–2008, en við verðum jafnframt að horfa til þess að það urðu allir fyrir forsendubresti. Hér varð efnahagshrun. Hér urðu — hæstv. forseti, ég vona að þingmenn geti sýnt stillingu hérna í salnum og ekki barið blöðum í borð þótt maður sé að lýsa skoðun sinni hér. Hér varð efnahagslegt tjón. Hér urðu hamfarir á fjármálamarkaði. Við getum ekki labbað á milli fólks og sagt: Bætt þú við þig vinnu, vegna þess að þú getur það, eða far þú til útlanda og reyndu að vinna þar til að reyna að borga af lánunum þínum, vegna þess að það er hellingur af fólki sem ekki fékk (Forseti hringir.) aðstoð í tíð fyrri ríkisstjórnar og gekk á veggi þegar það leitaði sér aðstoðar.