143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:39]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það atriði sem hv. þm. tekur upp núna er eitt þeirra sem maður setur spurningarmerki við. Í umræðunni sem hefur verið um fundinn fræga í Hörpu, þar sem skuldaleiðréttingin var kynnt, yfir til blaðamannafundarins í Iðnó, spyrja menn spurninga sem ég get ekki svarað nákvæmlega. Var verið að stytta viðmiðunartímabilið, m.a. vegna þess að við frekari úrvinnslu komust menn að þeirri niðurstöðu að eins og þetta var boðað í Hörpu hefði þetta orðið miklu hærri tala en 80 milljarðar? Hún virðist vera endanleg. Ég veit ekki hvort hún hefur verið samkomulag milli stjórnarflokkanna eða hvað. Það á eftir að koma í ljós vegna þess að í umsögn fjármálaráðuneytisins stendur að enginn viti hver heildarupphæðin verður fyrr en umsóknarfresti er lokið. Sækja allir um sem eiga rétt á því, líka þeir sem hafa ekki þörf fyrir?

Hv. þingmaður minntist á reglugerðarákvæðið sem ég gat um áðan líka þar sem ég tel að við göngum of langt með að framselja skattlagningarvaldið. Það er bundið í stjórnarskrá að enginn geti lagt á skatt eða afnumið nema Alþingi. Í frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Þá er ekki tilgreint sérstaklega í frumvarpinu hvaða verðbólguviðmiði gengið verður út frá við leiðréttinguna heldur er gert ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra ákvarði það með reglugerð.“

Þarna held ég að Alþingi verði að setja algjörlega skýrar reglur, þá líka um að setja klárar reglur sem er ekki hægt að toga og teygja í lögfræðitúlkunum þannig að allt logi í málaferlum þar á eftir.