143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í liðum a–g í 8. gr. frumvarpsins er farið yfir frádráttarliðina. Ég skildi hv. þingmann þannig að hann væri að inna eftir svörum við því hvort alls konar neyslulán kæmu líka til frádráttar. Það fer eftir ýmsu og þarf að skoða út frá þessum liðum, t.d. hvort það hafi verið á grundvelli verklagsreglna sem gerðar voru og vísað er til í c-lið eða mögulega eftir einhverju öðru. Ég hygg að þessi lán, eins og hv. þingmaður stillti máli sínu upp, ef ég skildi hann rétt, komi ekki til frádráttar.

Varðandi verðtrygginguna kom skýrsla í vetur um afnám verðtryggingar og meiri hluti var fyrir því í nefndinni að leggja til a.m.k. tvær aðgerðir. Annars vegar að lengja lágmarkstíma lána þar sem verðtrygging er heimil og færa okkur upp úr þessu fimm ára viðmiði yfir í a.m.k. sjö ár, ef ekki tíu ár. Það getur haft heilmikil áhrif t.d. á verðtryggingu ýmiss konar neytendalána eins og bílalána, sem að jafnaði hafa verið styttri en tíu ár. Og hins vegar að hætta með svokölluð Íslandslán, sem eru verðtryggð jafngreiðslulán til 40 ára. Það skiptir máli að grípa til þessara aðgerða. Þó að í þessu felist ekki neins konar bann við notkun verðtryggingarinnar er þarna verið að stíga mikilvæg skref til að taka á miklum ágöllum sem birtast okkur í kerfinu.

Ég tel að hv. þingmaður hafi gert allt of mikið með það að verðbólgan éti upp ávinninginn af uppgreiðslu lána vegna þess að augljóst er (Forseti hringir.) að ef það kemur verðbólguskot er betra að lánið sé í (Forseti hringir.) lægri stöðu en hærri.