143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:13]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að þakka fyrir athugasemdirnar og það er líka gaman að eiga þessar samræður við annan reyndan sveitarstjórnarmann.

Miðað við það sem ég hef hlustað á hér í dag og í gær þá finnst mér þetta kolvitlaus aðgerð. Það er til skýrsla frá Seðlabankanum þar sem vanda barnafjölskyldna í íslensku samfélagi er í raun líkt við vá, og við verðum að hlusta á það. Það eru sveitarfélögin sem veita mestu nærþjónustuna í þessum efnum. Það má ekki heldur gleyma því að sveitarfélögin tóku á sig að veita aukna fjárhagslega aðstoð við hrunið. Þau tóku líka á sig sértækar húsaleigubætur og hafa reynt að hafa sig öll við að veita góða þjónustu að ég tel. Því er manni brugðið af því að þetta eru stórar tölur og skipta miklu máli.