143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[19:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í byrjun vil ég segja þetta: 110%-leiðin var leið sem raunverulega hjálpaði þeim sem skulduðu mest, það voru engir aðrir sem fóru 110%-leiðina nema þeir sem voru alveg gríðarlega skuldsettir, þannig að það sé sagt hér. Þetta er langtum meira jöfnunartæki en nokkurn tímann 110%-leiðin, og var farið í þá aðgerð á síðasta kjörtímabili. Ég er ekki að gagnrýna þá leið, hún hefur reynst mörgum mjög vel og sem betur fer var hún farin því að hún hefur leyst margan manninn úr mikilli skuldakrísu.

Því er til að svara varðandi spurninguna hvort ég óttist ekki tekjuáhrif á ríkissjóð sem birtast í frumvarpinu. Ég kemst að því strax á morgun þegar frumvarpið verður tekið fyrir í fjárlaganefnd, og lífeyrissjóðsfrumvarpið líka, því að fjárlaganefnd á að skila umsögn til efnahags- og skattanefndar og þá fáum við til okkar fjármálaráðuneytið, Seðlabankann og greiningardeildirnar. (Forseti hringir.) Ég verð betur í (Forseti hringir.) stakk búin til að svara þessum spurningum þegar búið (Forseti hringir.) verður að fara yfir þetta með þeim fagaðilum.